Innlent

Miðflokkurinn vill færa fjármuni beint í vasa landsmanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins. Vísir/Vilhelm

Miðflokkurinn kynnti þau tíu mál sem flokkurinn mun leggja áherslu á í kosningastefnu sinni fyrir komandi Alþingiskosningar. Flokkurinn vill meðan annars að helmingur afgangs ríkissjóðs hvert ár renni beint í veski landsmanna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kynnti áherslurnar á fundi í Hörpu í gær. Kallar flokkurinn áherslurnar „10 ný réttindi fyrir íslensku þjóðina“.

Ber þar helst að nefna að Miðflokkurinn ætlar að leggja áherslu á að ef ríkissjóður verði rekinn með afgangi fái allir fullorðnir íslenskir ríkisborgarar helming afgangsins endurgreiddan, 1. desember árið eftir.

Skapi hvata fyrir stjórnmálamenn og kerfið að standa sig

Sagði Sigmundur Davíð á kynningunni að þetta myndi meðal annars skapa hvata fyrir „stjórnmálamenn, stofnanir og kerfið að fara vel með skattfé því að menn munu þurfa eftir árið að útskýra hvers vegna þeir geta ekki skilað neinu til baka ef þeir standa sig ekki“.

Hinum helmingnum verði varið í að endurgreiða skuldir eða settur í varasjóð verði það metið hagkvæmara.

Hver Íslendingur fái greitt auðlindagjald ár hvert, 100 þúsund krónur til að byrja með

Þá vill Miðflokkurinn einnig að sama dag, 1. desember ár hvert, fái hver fullorðinn Íslendingur greitt svokallað auðlindagjald. Fyrsta greiðslan verði 100 þúsund krónur á verðlagi yfirstandandi árs. Þessi greiðsla verði fjármögnuð með auðlindagjöldum.

Þriðjungi hlutafjár Íslandsbanka verði dreift jafnt á íslenska ríkisborgara

Þar að auki vill Miðflokkurinn að þriðjungi hlutafjár Íslandsbanka verði deilt jafnt á alla íslenska ríkisborrgara sem verða lifandi fyrir árslok 2021. Heimilt verði að selja bréfin eftir lok árs 2023.

Fullt tungla yfir Íslandsbanka. Miðflokkurinn vill deila þriðjungi hlutafjár bankans jafnt á alla landsmenn.Vísir/Vilhelm.

Segir í kynningu Miðflokksins að miðað við núgildandi markaðsvirði geti hlutur hvers og eins verið nálægt 250 þúsund krónum.

Aðgerðin er sanngjörn vegna þess að bankinn er nú þegar sameign þjóðarinnar, segir í kynningu Miðflokksins.

Áhersluatriðin tíu má nálgast hér, auk þess að hér fyrir ofan má sjá kynningu Sigmundar Davíðs á kynningunni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×