Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Fyrsta fjölskyldan komst frá Afganistan um helgina með flugi ásamt nokkrum vandamönnum sem dönsk stjórnvöld skipulögðu frá Afganistan. Flogið var í gegnum Islamabad í Pakistan til Keflavíkur og lenti fjölskyldan loks á Keflavíkurflugvelli í fyrrinótt.
Hinar tvær fjölskyldurnar komu hingað til landsins núna síðdegis eftir að hafa komist með flugi frá Kabúl í Afganistan til Tbilisi í Georgíu og þaðan til Finnlands, með flugi sem finnsk stjórnvöld skipulögðu.
Allir meðlimir fjölskyldnanna þriggja eru ýmist með íslenskan ríkisborgararétt eða með dvalarleyfi hér á landi. Fólkið hefur nú gengist undir skimun vegna Covid-19 og fór svo í sóttkví við komuna til landsins.