Innlent

Meðal hug­mynda að skipa sér­stakan ráð­herra fyrir eldri borgara

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Samkvæmt drögum að framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu við eldra fólk þarf verulega að samþætta heilbrigðisþjónustuna og félagsþjónustu.
Samkvæmt drögum að framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu við eldra fólk þarf verulega að samþætta heilbrigðisþjónustuna og félagsþjónustu. Vísir/Vilhelm

Nauðsynlegt er að skipuleggja og samþætta þjónustu við eldra fólk að mati höfundar tillagna um breytingar til heilbrigðisráðherra. Meðal hugmynda er að skipaður verði sérstakur ráðherra fyrir málefni aldraðra.

Heilbrigðisþing um framtíðarsýn um heilbrigðisþjónustu við aldraða hófst klukkan níu í morgun og stendur yfir þar til síðdegis í dag. Meðal helstu tillaga er að skapa aldursvænt samfélag, samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu og auka þátttöku eldra fólks í málefnum þess.

„Það hefur verið að stefna í það að það loga eldar eða óróleiki í málaflokknum og það er ekki farsælt að við séum að kljást við málin án þess að marka okkur sýn,“ segir Halldór S. Guðmundsson, dósent við Háskóla Íslands, en hann hefur unnið að drögum að stefnu um þjónustu við aldraða fyrir heilbrigðisráðuneytið sem hann kynnti á fundinum í morgun.

„Við stöndum bara frammi fyrir þeirri áskorun að stór hluti samfélagsins, tuttugu til tuttugu og fimm prósent samfélagsins, er eldra fólk,“ segir hann.

Meðal hugmynda er að sérstakur ráðherra fari með málefni eldra fólks. Halldór segir mestu máli skipta að þjónustan sé samþætt.

„Það er nú þannig í dag að málefni eldra fólks tilheyra að minnsta kosti tveimur ráðuneytum og það er bara hluti af því að samþætta þjónustuna úti á vettvangi þá þurfum við líka að samþætta hana miðlægt, í stjórnsýslunni.“

Sérstakan ráðherra þurfi ekki en nauðsynlegt sé að samþætta þjónustuna.

„Ég er bara að velta því upp að það er einn af valkostunum og það verður að vera heildarmynd í því sem við erum að gera. þannig að ef við ætlum að samþætta þjónustu við notandann sjálfan verðum við líka að samþætta hvernig við skipuleggjum þjónustuna.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×