Innlent

Síbrotamaður dæmdur í þriggja ára fangelsi

Árni Sæberg skrifar
Tómas Helgi var dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Tómas Helgi var dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Vísir/Vilhelm

Tómas Helgi Jónsson var á þriðjudag dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar og ævilangrar sviptingar ökuréttinda fyrir umferðar- og fíkniefna- og vopnalagabrot auk eldri brota. Tómas Helgi á að baki áralangan brotaferil.

Tómas Helgi var dæmdur til fangelsirefsingar í Héraðsdómi Norðurlands eystra en hann var ákærður fyrir umferðarlaga-, ávana-og fíkniefnalaga-og vopnalagabrot, með því að hafa, að kvöldi laugardagsins 10. október 2020, ekið bifreið sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana-og fíkniefna og lyfja. 

Í blóði Tómasar Helga mældust kannabisefni, amfetamín og klónazepam, sem er róandi lyf.

Þá fundust í fórum hans kannabisefni, amfetamín, flogaveikilyfið Gabapentin Ratiopharm og raflostbyssa.

Athygli vekur að í ákæru á hendur Tómasi Helga er minnst á Gabapentin Ratiopharm, en lyfið er hvergi að finna á lista yfir efni sem eru bönnuð á íslensku yfirráðasvæði.

Í seinni hluta ákæru er Tómas Helgi ákærður fyrir að hafa að kvöldi föstudagsins 16. október verið með í vörslum sínum 0,91 gramm af maríhúana, þegar lögregla hafði afskipti af honum í íbúð á Akureyri.

Tómas Helgi játaði sök í öllum ákæruliðum.

Refsing var ákveðin í einu lagi með fimm eldri dómum

Líkt og áður segir er brotaferill Tómasar Helga töluverður en hann nær allt til ársins 1994. Með ofangreindum brotum sínum rauf hann skilyrði reynslulausnar sem honum var veitt í apríl 2020. Reynslulausnin var til tveggja ára á 901 dags eftirstöðvum refsingar.

Tómas Helgi hefur margoft verið dæmdur fyrir samskonar brot og eru í ákæru á hendur honum. Það er að segja umferðar- og fíkniefnalagabrot.

Þyngstan dóm hlaut hann þó árið 2016 þegar hann var sakfelldur fyrir brot gegn valdstjórninni, tilraun til fjárkúgunar, þjófnað og stórfelld eignarspjöll og dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsis. 

Dóminn hlaut Tómas Helgi fyrir hlut sinn í Molotov-málinu svokallaða en hann veittist að sýslumannsfulltrúa á Akureyri með átaksskafti og kveikti í bíl hans með bensínsprengju eða svokölluðum molotov-kokteil.

Svipting ökuréttinda síáréttuð

Sem áður segir var Tómas Helgi dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar og ævilangrar sviptingar ökuréttinda.

Athygli vekur að Tómas var sviptur ökuréttindum ævilangt í febrúar árið 2016 og er sviptingin áréttuð í fimmta skipti með nýgengnum dómi.

Tómas var einnið dæmdur til að þola upptöku nokkurs magns vímuefna og raflostbyssu auk þess að greiða allan sakarkostnað sem nam 312 þúsund krónum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×