Innlent

Hefur á­hyggjur af stolnum byssum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur ekki áhyggjur af vélbyssusöfnurum.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur ekki áhyggjur af vélbyssusöfnurum.

Vil­hjálmi Árna­syni, þing­manni Sjálf­stæðis­flokksins, var brugðið þegar hann heyrði fréttir af gríðar­legri aukningu í inn­flutningi á sjálf­virkum skot­vopnum til landsins. Hann telur þó ekki að lands­menn þurfi að hafa á­hyggjur af mönnum sem vilja safna þessum vopnum en telur hins vegar virki­legt á­hyggju­efni að þessi vopn geti komist í rangar hendur.

„Á meðan þetta eru safnarar þá held ég að við getum verið róleg, það er held ég númer eitt tvö og þrjú,“ sagði Vil­hjálmur í Reykja­vík síð­degis í dag.

Eins og Stöð 2 og Vísir greindu frá í vikunni eru nú 180 vél­byssur í einka­eigu á Ís­landi og voru 252 slík vopn flutt inn til landsins í fyrra. Þá var sjö byssum stolið í fyrra en flestar byssur sem notaðar eru í glæpum á Ís­landi eru þýfi.

„Við þurfum að hafa virki­legar á­hyggjur af því. Og því er eigin­lega betra að fólk eigi fleiri byssur því að þá eru komnar strangar reglur um geymslu og öryggis­kerfi, byssu­geymslur og annað slíkt,“ sagði Vil­hjálmur.

Þegar menn eiga þrjú skot­vopn taka strangari reglur um hvernig þeim ber að geyma þær, það er í læstum byssu­geymslum.

„Þau vopn sem er verið að stela eða eru ó­skráð held ég að séu frekar vopn sem eru að erfast á milli eða eru ekki svona geymd á tryggum og öruggum stöðum,“ sagði Vil­hjálmur.

Alþingismenn eiga ekki að bera ábyrgð á byssueigendum

Spurður hvort ekki þurfi hrein­lega að herða reglur um geymslu skot­vopna, svo þeir sem eigi eina eða tvær byssur verði einnig að geyma þær í byssu­geymslum, sagði Vil­hjálmur:

„Af hverju þurfum við alltaf lög og reglur til að láta fólk bera á­byrgð? Það vita allir að byssa er hættu­leg. Þannig ef að þú átt byssu þá áttu bara að geyma hana á öruggan hátt. 

Þannig mér finnst það bara vera þannig að þetta eigi bara að liggja í augum uppi fyrir fólki. Að ég sem al­þingis­maður eigi ekki að þurfa að bera á­byrg á því. Heldur er það frekar að eig­andinn á byssunni þurfi að átta sig á hversu hættu­legt þetta er.“

Þurfum ekki að hafa á­hyggjur af söfnurum?

„Ég held að við eigum frekar að hafa á­hyggjur af þeim sem að kunna ekki að hefta skap sitt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×