Innlent

Tók á að lesa skýrslu um lofts­lags­breytingar

Árni Sæberg skrifar
Tinna Hallgrímsdóttir er formaður Ungra Umhverfissinna.
Tinna Hallgrímsdóttir er formaður Ungra Umhverfissinna. Stöð 2

Samtök ungra umhverfissinna stóðu fyrir loftslagsmótmælum á Austurvelli í dag í tilefni nýrrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Formaður samtakanna segir að sér hafi brugðið þegar hún las skýrsluna.

Skýrslan sem kom út í morgun er sögð „rauð viðvörun“ og alvarleg staða kemur nú fram í ofsaveðri og náttúruhamförum.

„Skýrslan náttúrulega sýnir okkur margt sem við vissum nú þegar en veitir okkur meiri vísindalega vissu um ákveðin atriði.“ sagði Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra Umhverfissinna, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Ég verð að viðurkenna að það tók alveg á í morgun að lesa að 1,5 gráðu hlýnun er nær en við héldum, við erum núna að horfa fram á helmingslíkur á að ná henni á fyrri hluta fjórða áratugar þessarar aldar,“ segir Tinna. 

Hún segist vel geta hugsað sér að hún hafi ekki verið eina ungmennið sem átti erfitt með að lesa skýrsluna.

„Það er einmitt af þessari ástæðu að við höfum staðið hérna vaktina á Austurvelli, nær hvern einasta föstudag í rúmlega tvö ár til þess að mótmæla ófullnægjandi aðgerðum íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Við munum halda því áfram greinilega,“ segir hún.

Tinna segir skipti máli að upplýsingunum í skýrslunni verði breytt í markmið og aðgerðir. 

„Við þurfum að sjá miklu róttækari, metnaðarfyllri markmið um samdrátt í losun. Við þurfum að sjá aðgerðaáætlun uppfærða í samræmi við það. Við þurfum líka að hugsa um hvað tímafaktorinn er mikilvægur og dýrasta aðgerðin er aðgerðaleysi. Við sjáum núna markmið um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2050, þetta þarf að gerast miklu fyrr,“ segir Tinna.

Tinna segir að þjóðin verði að sjá fyrir sér hvernig kolefnishlutlaust Ísland við viljum sjá fyrir 2040 og hvernig við ætlum að undirbúa Ísland sem fyrst til að vera samkeppnihæft í því lágkolefnishagkerfi sem mun brátt taka við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×