Lífið

Kári segir böðin og ræktina ekki það sem muni bjarga Nökkva Fjalari

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Nökkvi Fjalar segir það sína samfélagslegu ábyrgð að sinna heilsu sinni.
Nökkvi Fjalar segir það sína samfélagslegu ábyrgð að sinna heilsu sinni.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur ekki að líkamsrækt, dagbókarskrif og köld böð geti minnkað líkurnar á því að smitast af kórónuveirunni.

Þessir hlutir eru meðal þess sem athafnamaðurinn og áhrifavaldurinn Nökkvi Fjalar Orrason hefur nefnt sem atriði sem hann telur hjálpa sér að viðhalda góðu líferni og verjast smiti og veikindum.

Nökkvi birti á dögunum færslu á Facebook þar sem þetta kom fram, í kjölfar harðrar gagnrýni sem hann fékk á sig fyrir að hafa ekki látið bólusetja sig við kórónuveirunni.

Dæmi um að hraustustu menn hafi dáið

„Ég er nokkuð viss um að hann hefur enga trú á þessu sjálfur,“ sagði Kári í Pallborðinu á Vísi í dag, þar sem hann ræddi stöðu faraldursins hér á landi.

„Mjög hraustur ungur maður er með tiltölulega litlar líkur á því að verða illa lasinn ef hann smitast, en þó eru þess dæmi að mjög hraustir, ungir menn, menn í alveg toppformi, hafa látist af þessari pest,“ sagði Kári.

Hann kvaðst vona að Nökkvi slyppi við veikindi, smitaðist hann af veirunni, og sagðist þykja vænt um hann.

„Mér finnst hann tala dálítið ógætilega þegar kemur að þessu máli.“

Ungur aldur og sterkt ónæmiskerfi mun áhrifaríkara 

Í færslunni segist Nökkvi hafa orðið fyrir mikilli gagnrýni eftir að hann greindi frá því á Instagram að hann hafi ákveðið að „kýla ekki á bólusetningu“ í þetta skiptið. Sagðist hann hafa lesið sér til um málið og hann teldi það sína samfélagslegu ábyrgð að sinna ávallt heilsu sinni.

Sjá einnig: Auddi skýtur á Nökkva Fjalar fyrir að vilja ekki bólu­setningu

Aðspurður sagðist Kári ekki telja að dagbókarskrifin, og önnur atriði sem Nökkvi nefnir í færslu sinni, muni hjálpa til við að verjast smiti eða veikindum.

„Ég er voða hræddur um að meira að segja öll þessi líkamsrækt, öll þessi böð og tærar, fínar, flottar hugsanir, að þær komi ekki til með að bjarga honum ef hann smitast. Það sem gæti bjargað honum er að hann er mjög ungur, með kraftmikið ónæmiskerfi,“ sagði Kári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×