Innlent

„Auð­vitað er þetta ekki þannig að veiran verði látin geisa hér yfir allt“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þórólfur Guðnason er sóttvarnalæknir
Þórólfur Guðnason er sóttvarnalæknir Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það sé ekki stefnan að láta kórónuveiruna „geisa hér yfir allt“, þrátt fyrir orð hans í útvarpsþættinum Sprengisandi í morgun um nú þyrfti að „reyna að ná þessu hjarðónæmi með því að láta veiruna einhvern veginn ganga“.

Þetta kom fram í viðtali RÚV við Þórólf í kvöldfréttum klukkan sjö í kvöld þar sem hann var spurður út í orð hans í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun, þar sem Þórólfur fór yfir stöðu faraldursins hér á landi og næstu skref.

Viðtalið vakið mikla athygli

Orð hans í þættinum vöktu mikla athygli, ekki síst svar hans við spurningu þáttastjórnandans Frosta Logasonar eftir að Þórólfur hafði farið yfir áhrif bólusetningar hér á landi, sem hann sagði morgunljóst að kæmi í veg fyrir alvarleg veikindi.

„En ég hefði svo gjarnan viljað að bólusetningin hefði komið í veg fyrir smit en þannig er bara staðan og þá þurfum við bara að stokka upp spilin og leggja upp ný plön, það er bara ekkert öðruvísi.“

Þannig að það er óhætt að segja að þetta svokallaða hjarðónæmi, því verður ekki náð nema með því að meirihluti þjóðarinnar 75-85 prósent af þjóðinni smitast?

„Við náttúrulega getum í raun og veru ekki gert annað þannig að okkar áskorun núna er það, nú erum við búin að bólusetja svona marga. Áskorun okkar núna er sú að reyna að gefa fleiri skammta, örvunarskammta þeim við teljum að hafi kannski svarað bólusetningunni illa og eru þess vegna í verri stöðu gagnvart þessu smiti. Það má ekki gleyma því af þetta delta-afbrigði er miklu meira smitandi en fyrri afbrigði og það veldur alvarlegri sjúkdómi,“ sagði Þórólfur.

Sagði hann í kjölfarið að finna þyrfti einhvers konar milliveg.

„Við þurfum því að reyna að bólusetja og verja þá betur, þessa sem eru viðkvæmir fyrir en láta okkur lynda það að sýkingin smiti aðra. Það eru náttúrulega flestir sem fá þetta vægt og öðlast þannig gott ónæmi. Við þurfum einhvern veginn að sigla þannig á milli skers og báru núna í þessu, að fá ekki of mikið af alvarlegum veikindum þannig að spítalakerfið riði til falls en samt reyna að ná þessu hjarðónæmi með því að láta veiruna einhvern veginn ganga. Það er ekkert takmark núna í sjálfu sér að útrýma veirunni eða losa hana alveg úr samfélaginu. Við munum þá á bara öðrum tímapunkti fá hana einhvern veginn inn. Þannig að við þurfum einhvern veginn að reyna að sigla þetta og spila þetta þannig að við fáum sem mesta út úr öllu,“ sagði Þórólfur.

Heyra má kaflann úr Sprengisandi þar sem þessi orðaskipti fóru fram hér að neðan, auk þess sem að hlusta má á allt viðtalið neðst í fréttinni.

Í kvöldfréttum RÚV í kvöld var rætt stuttlega við Þórólf þar sem hann fór yfir þessu ummæli. Vísaði hann því þar á bug að til stæði að láta faraldurinn geisa hér, þrátt fyrir að hann hafi í Sprengisandi sagt að það þyrfti að „reyna að ná þessu hjarðónæmi með því að láta veiruna einhvern veginn ganga.“

„Þetta er allavegana ekki alveg rétt, hvort sem að ég hef sagt þetta ekki alveg nógu skýrt eða hvort tilvitnunin er eitthvað skrýtin. Auðvitað er þetta ekki þannig að veiran verði látin geisa hér yfir allt, það hefur aldrei verið stefnan,“ sagði Þórólfur við fréttamann RÚV.

„Þannig að það er ekki lengur takmarkið að ná þessu hjarðónæmi?,“ var hann spurður.

„Takmarkið er að ná hjarðónæmi á einn eða annan máta, annað hvort með bólusetningu. Við höfum reynt það. Helmingur af þeim sem eru bólusettir eru ónæmir þannig að við náum hjarðónæmi hjá þeim. Til þess að að ná hjarðónæmi í samfélagið þá þurfa fleiri að vera ónæmir gegn veirunni og það er þá ekki hægt að gera það öðruvísi heldur en að bólusetja betur eins og við erum að gera með þriðja skammti, endurbólusetja þá sem eru viðkvæmastir þannig að við getum náð því á margan á annan máta heldur en að segja: nú látum við bara veiruna ganga lausa um samfélagið. Það hefur enginn sagt. Ég hef alltaf sagt það að við þurfum að vera með einhvers konar takmarkanir, bæði á landamærum og eins innanlands og svo erum við með þessar bólusetningar,“ sagði Þórólfur sem bætti einnig við möguleikanum á nýjum bóluefnum og endurbólusetningum sem vopnum gegn faraldrinum.


Tengdar fréttir

Ná þurfi hjarðónæmi með því að láta veiruna ganga

Sóttvarnalæknir telur að nú verði að reyna að ná fram hjarðónæmi gegn kórónuveirunni með því að láta hana ganga áfram, en reyna að koma í veg fyrir alvarleg veikindi með því að hlífa viðkvæmum hópum. Hann segir markmiðið á þessum tímapunkti ekki geta verið að útrýma veirunni úr samfélaginu.

Ekki viss um að hjarðónæmi sé besta leiðin

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, hefur efasemdir um ágæti þess að reyna að ná fram hjarðónæmi við Delta-afbrigði kórónuveirunnar. Verði það hins vegar stefnan sé mikilvægast að reyna að vernda viðkvæma hópa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×