Innlent

Engin þyrla til­tæk þegar óskað var eftir að­stoð Gæslunnar vegna slyss

Eiður Þór Árnason og Kjartan Kjartansson skrifa
Þyrlan TF-EIR er nú í viðgerð.
Þyrlan TF-EIR er nú í viðgerð. Vísir/Jóhann

Karlmaður slasaðist þegar fjórhjól hans fór fram af skurðarbarmi í Vestur-Landeyjum skammt frá Hvolsvelli rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar en engin af þremur þyrlum hennar hefur verið til taks í rúman sólarhring vegna bilana.

Var þyrlulæknir því sendur á vettvang með séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit í forgangsakstri til móts við sjúkrabíl. Reiknað er með að viðgerð á þyrlunni TF-EIR verði lokið um klukkan sjö í kvöld, samkvæmt upplýsingum frá Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.

Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi, var maðurinn fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Hvorki hann né Ásgeir höfðu upplýsingar um hversu mikið karlmaðurinn slasaðist.

Alvarleg en sjaldgæf staða

Þyrlurnar TF-GNA og TF-EIR áttu báðar að vera tiltækar í þessari viku en bilanir komu upp í báðum þeirra. TF-GRO hefur á sama tíma verið í langtímaviðhaldsskoðun, að sögn Ásgeirs og því ekki flughæf.  

„Það er sjaldgæft að allar þrjár þyrlur Landhelgisgæslunnar séu stopp á sama tíma en það má hreinlega segja að það sé bara óheppni sem valdi þessu.“

Ásgeir segir það vera alvarlegt þegar engin þyrla er tiltæk í svo langan tíma en áætlanir gera ráð fyrir að tvær þyrlur séu ávallt til taks. Ekki er um að ræða umfangsmiklar bilanir en beðið er eftir varahlutum í TF-GNA sem eru á leið til landsins. Ásgeir segir að flugvirkjar Gæslunnar kappkosti að koma báðum þyrlunum í samt lag við fyrsta tækifæri.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×