Bíó og sjónvarp

SpaceX skýtur þeim á braut um jörðu og Netflix fangar ævintýrið á filmu

Samúel Karl Ólason skrifar
Áhöfn Inspiration4 æfir sig í þyngdarleysi.
Áhöfn Inspiration4 æfir sig í þyngdarleysi. Inspiration4

SpaceX ætlar að skjóta hópi almennra borgara á braut um jörðu í næsta mánuði og verður geimskotinu og aðdraganda þess gerð skil í heimildaþáttum Netflix. Forsvarsmenn streymisveitunnar segja þetta í fyrsta sinn sem fyrirtækið sýni heimildaþætti „nærri því í rauntíma“.

Fyrstu þættirnir eiga að birtast þann 6. september og tveir til viðbótar þann þrettánda. Til stendur að skjóta geimförunum á loft þann fimmtánda. Síðasti þátturinn, sem mun fjalla um geimferðina sjálfa, verður svo sýndur seinna í mánuðinum.

Jason Hehir mun leikstýra þáttunum en hann er hvað þekktastur fyrir að gera heimildarseríuna The Last Dance, sem fjallar um Michael Jordan.

Í frétt Sky News segir að hópurinn muni verja þremur dögum á braut um jörðu. Ferðin er fjármögnum af auðjöfrinum Jared Isaacman og er markmiðið að safna tvö hundruð milljónum dala til styrktar St Jude barnaspítalans.

Með Isaacman fara þau Sian Proctor, jarðvísindamaður, Christopher Sembrosi, fyrrverandi meðlimur í flugher Bandaríkjanna, og Haley Arceneaux, sem starfar hjá St. Jude og lifði af krabbamein sem hún fékk í æsku.

Alþjóðlega geimstöðin er á braut um jörðu í um fjögur hundruð kílómetra hæð en þessi hópur mun fara hærra en það. Þau verða um borð í Dragon-geimfari SpaceX sem kallast Inspiration 4.

Það er sama nafn og verkefnið sjálft ber. Áhugasamir geta fundið frekari upplýsingar um verkefnið og áhöfnina hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.