Innlent

Stefna að tak­marka­lausu skóla­haldi á öllum stigum í haust

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að stefnt sé að takmarkalausu skólahaldi á öllum stigum í haust. 
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að stefnt sé að takmarkalausu skólahaldi á öllum stigum í haust.  Vísir/Vilhelm

Stefnt er að því að skólahald geti hafist takmarkalaust á öllum skólastigum í haust. Forsætisráðherra segir að verið sé að meta hvort áhættuþætti við bólusetningar barna og ungmenna og fylgst sé náið með stöðunni.

„Við erum að meta bólusetningar barna og ungmenna. Það þarf að meta og vega áhættuna við að veikjast fyrir börnin og síðan áhættuna af aukaverkunum vegna bóluefna,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Í dag hefst örvunarbólusetning þeirra sem fengu bóluefni Janssen fyrr í sumar og eru kennarar meðal þeirra sem eru í forgangshópi þar. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að ekkert bendi til að takmarkanir verði á skólahaldi í haust á öllum skólastigum.

„Já, kennarar eru núna að fara aftur í bólusetningu og við fylgjumst mjög náið með stöðunni. Það er ekkert sem bendir til að takmarkanir verði á skólahaldi í haust,“ segir Lilja.

Samtal eigi sér nú stað við færustu sérfræðinga sem muni leggja mat á hvort óhætt sé að skólahald verði takmarkalaust.

„Við erum núna í samvinnu við okkar færustu sérfræðinga. Þeir ráðleggja okkur það að skoða þetta frekar og við munum fylgjast mjög vel með stöðunni,“ segir Lilja.

„Mér finnst mjög mikilvægt að þetta gangi allt upp hjá okkur og við vinnum að því.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×