Innlent

Annar tveggja ljósleiðara sem tengja Ísland við umheiminn bilaði í gær

Árni Sæberg skrifar
Sæstrengirnir tveir, DANICE og FARICE.
Sæstrengirnir tveir, DANICE og FARICE. Mynd/Farice

Ljósleiðarinn Farice sem liggur frá Seyðisfirði til Skotlands bilaði í gær og allt samband lá niðri milli klukkan 13:00 og 05:00. Einungis einn annar ljósleiðari tengir Ísland við umheiminn.

Ekki er búið að greina í hverju bilunin fólst en Farice vinnur nú hörðum höndum að því að bilanagreina ljósleiðarann.

Ef bilunin er í sjó, sem er ekki ólíklegt, þarf að taka ljósleiðarann upp og laga hann með sérhæfðu skipi.

Þorvarður Sveinsson framkvæmdastjóri Farice, segir að  Danice, hinn ljósleiðari fyrirtækisins, eigi að geta annað allri neteftirspurn landsins. Hins vegar sé það undir viðskiptavinum fyrirtækisins komið að kaupa þjónustu beggja ljósleiðaranna.

Ef viðskipavinir Farice, sem eru í flestum tilvikum fjarskiptafyrirtæki, kaupa einungis aðgang að öðrum ljósleiðaranum glata þeir allri nettengingu ef bilun kemur upp.

Farice er með í undirbúningi lagningu á þriðja strengnum ÍRIS, sem mun komast í gagnið fyrir árslok 2022 og eykur það fjarskiptaöryggi landsins enn frekar.

Ljóst er að ef netsamband liggur niðri er illt í efni, bankar hætta að virka sem skyldi og öll þjónusta sem reiðir sig á skýjalausnir leggst af. Sem dæmi má nefna að þegar vefþjónusta Amazon bilaði var ekki hægt að selja bíla á Íslandi þar sem umferðastofa var með hluta af kerfi sínu í Amazonskýinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×