Innlent

„Það er hræði­legt að þurfa að fá nálgunar­bann á son sinn“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Eva og Bjarni eiga tvo syni sem urðu vitni að því þegar sonur Evu réðst á Bjarna, stjúpföður sinn.
Eva og Bjarni eiga tvo syni sem urðu vitni að því þegar sonur Evu réðst á Bjarna, stjúpföður sinn. vísir/vilhelm

„Þetta er al­gjör harm­leikur og ég vil koma því á­leiðis til fólks að þetta getur gerst alls staðar. Fíknin er skelfileg og hún breytir fólki,“ segir Eva Dögg Sigur­geirs­dóttir. Hún og maður hennar, Bjarni Áka­son, segjast hafa lent í vægast sagt ó­skemmti­legu at­viki í gær þegar sonur Evu hafi gengið í skrokk á stjúpföður sínum, Bjarna, fyrir utan heimili þeirra.

Fjöl­skyldan hefur gengið í gegn um mikið síðasta árið en síðasta sumar svipti Gísli Rúnar Jóns­son, stjúpfaðir Evu Daggar, sig lífi. Hún segir að and­látið hafi reynst syni hennar erfitt og að hann hafi fallið í neyslu nokkrum mánuðum síðar eftir fimm ára edrú­mennsku.

Vildu pening frá Bjarna

Bjarni Áka­son, fjárfestir og athafnamaður, rekur sam­skiptin sem hann átti við stjúp­son sinn í gær í sam­tali við Vísi:

„Hann byrjaði að hringja í mig þarna upp úr há­degi í gær með ein­hverjum fé­laga sínum,“ segir Bjarni.

Stjúpsonurinn hafi hringt og farið að bulla upp sögur um að Bjarni skuldaði sér pening.

„Þetta snerist allt um að sækja af mér ein­hvern pening með ein­hverju bulli. Ég bara skellti á hann, nenni ekki að hlusta á svona vit­leysu,“ segir Bjarni. „Þá fer hann að hringja í móður sína og þetta stig­magnast með deginum; hann hringir og hringir og fer að senda mér skila­boð með hótunum.“

Verst að börnin hafi þurft að horfa upp á þetta

Í eftir­mið­daginn hafi þeir fé­lagar síðan mættir heim til Evu og Bjarna.

Bjarni var þar fyrir utan húsið með börnum sínum og Evu. „Og þeir bara ganga í skrokk á mér. Þetta er í fyrsta skipti sem ég lendi í svona. Það sem mann svíður mest er að börn hafi þurft að horfa upp á þetta,“ segir Bjarni.

Svona leit Bjarni út eftir líkamsárásina í gær.facebook/Bjarni ákason

Hjónin hafa kært líkams­á­rásina til lög­reglu og segja að mennirnir hafi verið hand­teknir í gær. Þeim verði þó sleppt úr haldi í dag.

„Maður kærir og kærir en svo er þessum mönnum bara hleypt aftur í um­ferð. Þeir þurfa auð­vitað næsta skammt og maður veit ekki hvað þeir gera þá. Dagurinn hjá þeim í þessari neyslu kostar ein­hvern 150 þúsund kall og þeir leita bara leiði til að fjár­magna hann. Þetta í gær var ein leiðin,“ segir Bjarni.

Hjónin hafa marg­sinnis áður kært son Evu fyrir þjófnað á heimili þeirra. Í gær gengu þau svo skrefinu lengra og fékk Eva nálgunar­bann á son sinn.

„Það er hræði­legt að þurfa að fá nálgunar­bann á son sinn,“ segir Eva við Vísi. „En hann er bara ekki sonur minn núna. Ekki á meðan hann er í þessari neyslu. Þá þekkir maður ekki manninn.“

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.