Innlent

Búið að kæra fimm líkams­á­rásir eftir anna­sama helgi

Eiður Þór Árnason skrifar
Óvenjumikið var að gera hjá lögreglunni á Vesturlandi um helgina.
Óvenjumikið var að gera hjá lögreglunni á Vesturlandi um helgina. Vísir/Vilhelm

Annasamt hefur verið hjá lögreglunni á Vesturlandi það sem af er júlímánuði en fimm líkamsárásir hafa verið kærðar í umdæminu eftir síðustu helgi.

Mikið hefur verið að gera vegna bæjarhátíða og var fjöldi gesta á tjaldstæðum síðustu daga. Nokkuð hefur verið um útköll vegna hávaða og voru fangaklefar fullsetnir aðfaranótt sunnudags. Sömuleiðis var nokkuð um afskipti af áfengisneyslu ungmenna.

Fram kemur í færslu á Facebook-síðu lögregluembættisins að umferðarslys hafi verið nokkuð algeng á Vesturlandi og sum þeirra mjög alvarleg. 65 ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur það sem af er júlí þar sem ökuhraði var hátt upp í 150 kílómetrar á klukkustund.

Þá hafa 650 ökumenn verið myndaðir við hraðakstur af hraðamyndavélum um land allt en úrvinnsla þeirra brota fer fram hjá lögreglustjóranum á Vesturlandi.

Óku í veg fyrir viðbragðsaðila

Að sögn lögreglu eru margir ökumenn með stóra eftirvagna ekki með réttu hliðarspeglana til að sjá aftur fyrir sig. Skapar þetta hættu fyrir aðra í umferðinni en dæmi er um að ekið hafi verið í veg fyrir neyðarakstursbíla í forgangsakstri þar sem ökumenn sáu ekki þá sem ætluðu að taka fram úr þeim.

Lögregla hafði nokkur afskipti af ökumönnum sem eru grunaðir um ölvun við akstur og þeim sem keyrðu vanbúin ökutæki. Þá sofnaði ökumaður sem átti leið um Borgarnes við aksturinn og ók niður ljósastaur og á rafmagnskassa. Engin slys urðu á fólki.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.