Innlent

Líklega endurbólusett með öðru en Janssen

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Guðrún Aspelund segir að verið sé að skoða hvort fólk sem var bólusett með Janssen þurfi að fá bóluefni frá öðrum framleiðanda.
Guðrún Aspelund segir að verið sé að skoða hvort fólk sem var bólusett með Janssen þurfi að fá bóluefni frá öðrum framleiðanda. Vísir/Sigurjón

Embætti landlæknis hefur það til skoðunar hvort fólk með bóluefni frá Janssen þurfi á endurbólusetningu að halda. Yfirlæknir á sóttvarnasviði embættisins segir að næsti skammtur verði þá af öðru bóluefni en Janssen.

Greint var frá því í vikunni að rannsóknir bendi til þess að þeir sem hafi fengið bóluefni frá Janssen muni þurfa á annarri sprautu að halda til að fá næga vörn gegn kórónuveirunni. Aðeins ein sprauta hefur verið gefin af Janssen á meðan þær eru tvær af öðrum bóluefnum. Þeir sem fá Janssen teljast hins vegar enn sem komið er full bólusettir, en áhyggjur hafa verið um að bóluefnið kunni ekki að virka eins vel á hið svokallaða Delta-afbrigði veirunnar. 

Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sóttvarnasviði hjá embætti landlæknis, segir það til skoðunar að endurbólusetja þennan hóp fólks.

„Þetta er í skoðun og hefur verið í skoðun,” segir Guðrún.

„Janssen bóluefnið er samt sem áður mjög gott til að verjast alvarlegum sýkingum og innlögnum en af því það er ein sprauta miðað við tvær sprautur af t.d Astra Zeneca sem er sambærilegt bóluefni og það hafa komið út rannsóknir sem sýna það að tvær sprautur veita betri vörn heldur en ein að þá er þetta í skoðun. Það er alveg hugsanlegt að þeir sem hafa fengið eina sprautu af Janssen verði boðin seinni sprauta.”

Hugsanlegt sé að fólk fái annað bóluefni en Janssen.

„Þetta yrði þá ekki fyrr en að eftir einhverjum tíma liðnum eftir fyrri sprautuna það er ekki eitthvað sem þarf að gera akkúrat núna það eru einnig rannsóknir í gangi á þessu enn þá og síðan þarf að taka ákvörðun hvað langur tími á að líða á milli og hvaða bóluefni yrði þá notað,” segir hún.

Þannig að hugsanlega verður seinni sprautan ekki frá framleiðanda Janssen?

„Nei,hugsanlega ekki,” svarar Guðrún.

Um níutíu prósent fullorðinna hefur nú fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn kórónuveirunni og um 72 prósent eru fullbólusett. Alls hafa 223.719 einstaklingar verið fullbólusettir og 38.332 hafa fengið einn skammt. Næstum allir á aldrinum 70 ára og eldri hafa verið fullbólusettir, nærri 90 prósent 60 til 69 ára og um 80 prósent 40 til 59 ára. Um 60 prósent 16 til 29 ára hafa verið bólusett og 65 prósent 30 til 39 ára.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×