Innlent

Persónuvernd gerir ráðuneytið afturreka

Snorri Másson skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Heilbrigðisráðuneytið fær ekki að afla gagna úr sjúkraskrám eins og það hafði ætlað sér.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Heilbrigðisráðuneytið fær ekki að afla gagna úr sjúkraskrám eins og það hafði ætlað sér. Vísir/Vilhelm

Persónuvernd hefur gefið út álit þar sem kemur fram að heilbrigðisráðuneytið skorti lagaheimild til að hefja öflun persónuupplýsinga í gegnum heilbrigðisstofnanir, sem ráðuneytið hafði stefnt á að ráðast í.

Ráðuneytið hafði meðal annars ætlað að afla persónugreinanlegra og í sumum tilvikum viðkvæmra upplýsinga um lyfjamál fólks, sjúkraflutninga og um þjónustu við sjúklinga inni á sjúkrahúsum.

Heilbrigðisráðuneytið taldi sig þess umkomið að afla þessara upplýsinga í gegnum Sjúkratryggingar Íslands og Landspítalann meðal annars á þeim grundvelli að heilbrigðisráðherra beri ábyrgð á yfirstjórn heilbrigðismála hér á landi, og þurfi til þess að geta sinnt þeirri skyldu að geta safnað gögnum frá undirstofnunum.

Stefnan var síðan að nýta þau við mat á kostnaði við lagafrumvörp, við fjárhagsáætlanir og önnur skipulagsleg atriði.

Persónuvernd mat það svo að heilbrigðisráðuneytinu væri vegna persónuverndarlaga óheimilt að safna upplýsingum í þremur af þeim fjórum flokkum sem ráðuneytið hafði í hyggju að safna upplýsingum um.

Fram kemur í áliti Persónuverndar að í málinu hafi reynt á það hvort umrædd vinnsla persónuupplýsinga væri unnin í þágu almannahagsmuna, enda væri hægt að fallast á hana undir slíkum kringumstæðum. 

Af niðurstöðunni að dæma er ekki annað að sjá en að Persónuvernd hafi metið málið þannig að gögnin yrðu ekki nauðsynleg vegna verks sem er unnið í almannaþágu.

Ráðuneytið hugðist upphafla afla upplýsinga úr gagnagrunnum með heilsufarsupplýsingum, þ. á m. sjúkraskrárkerfum, með breytum á borð við aldur sjúklinga í dögum, auk kennitalna þeirra sem fengið hafa tiltekin lyf. Nú þarf það að endurskoða þau áform eða útfæra þau upp á nýtt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.