Fótbolti

Gareth Bale gekk í burtu þegar hann var spurður um framtíð sína

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gareth Bale vildi ekki svara spurningu blaðamanns um hvort hann hafi spilað sinn seinasta leik með landsliðinu.
Gareth Bale vildi ekki svara spurningu blaðamanns um hvort hann hafi spilað sinn seinasta leik með landsliðinu. Athena Pictures/Getty Images

Gareth Bale, leikmaður velska landsliðsins, gekk í burtu þegar hann var spurður út í framtíð sína með landsliðinu eftir 4-0 tap gegn Dönum í dag. Bale og liðsfélagar hans eru á heimleið eftir tapið.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort Bale muni leggja landsliðsskóna á hilluna eftir EM, en þessi 31 árs leikmaður á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Real Madrid.

Í samtali við blaðamenn eftir tapið gegn Dönum sagði Bale að leikmenn liðsins hafi verið reiðir og pirraðir yfir því hvernig leikurinn tapaðist.

„Þetta eru vonbrigði, það er það eina sem ég get sagt,“ sagði Bale eftir leikinn í dag. „Við misstum af tækifærinu en ég get ekkert sett út á hvað við lögðum okkur mikið fram og það er það minnsta sem við getum gert. Ég er stoltur af okkur.“

En þegar Bale var spurður út í hvort að þetta hafi verið hans seinasti leikur fyrir velska landsliðið, stöðvaði hann viðtalið um leið.

Robert Page, þjálfari liðsins, kom leikmanni sínum þó til varnar.

„Af hverju ætti hann að vilja svara spurningu um framtíð sína?“ spurði Page. „Fyrir mér er þetta ónærgætin spurning. Hann er nýkominn af vellinum eftir tap og þetta snýst um hópinn og hvernig við komum til baka eftir þennan leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×