Lífið

Segir mögulegt að virðast tíu árum yngri með andlitsæfingum

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ragnheiður Guðjohnsen segir að konur komi meira í andlitsþjálfun en karlar séu forvitnir.
Ragnheiður Guðjohnsen segir að konur komi meira í andlitsþjálfun en karlar séu forvitnir. Bylgjan

„Við förum í líkamsrækt til þess að byggja upp vöðvana og stinna húðina, líta betur út og líða betur. Þannig er hægt að gera með andlitið, við erum með yfir 40 vöðva í andlitinu,“ segir Ragnheiður Guðjohnsen andlitsþjálfari. Hún heldur námskeið þar sem hún kennir fólki að þjálfa andlitið til þess að gera útlitið unglegra.

Ragnheiður mætti í Bítið á Bylgjunni í dag og kenndi þáttastjórnendum að draga úr hrukkum, án nokkurs konar inngrips. Hún kallar þetta andlitsrækt eða facefit. Ragnheiður lofaði í þættinum að fyrir og eftir myndirnar sem hún hefur birt á síðunni sinni séu ekkert „photoshoppaðar“ og að árangurinn raunverulegur.

Ragnheiður segir að fólk eigi það til að gleyma því að æfa andlitið.

„Með því að æfa vöðvana í andlitinu, gera æfingar fyrir andlitið, stinna vöðvana þá náttúrulega lyftir þú húðinni og örvar blóðflæðið og þá kemur meiri næring til frumna og þar af leiðandi stærsta líffæri líkamans, húðarinnar. Þá erum við að efla collagenið og það sem styður húðina.“

Á síðunni Facefit skrifar Ragnheiður að fólk geti yngst um tíu ár með þessum æfingum.

„Það eru stór orð, ég veit það, en það er bara en þú getur gert ótrúlega hluti með þessum æfingum,“ segir Ragnheiður. Nefnir hún dæmi um 82 ára konu sem kom á námskeið til hennar.

„Hún fór að gera æfingar fyrir svæðið á milli augabrúnanna, við köllum þetta ellefu-línu. Hún tekur eftir því að þær snarminnka og eiginlega hverfa.“

Ragnheiður segir að konan hafi tekið eftir breytingum um leið og hún hætti að gera æfingarnar tímabundið. Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. Þar má heyra hana útskýra hvernig andlitsæfingar eru gerðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×