Innlent

Hætt að bólusetja í dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir segir hafa verið litlar heimtur í bólusetningum með Janssen í dag.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir segir hafa verið litlar heimtur í bólusetningum með Janssen í dag. Vísir/Vilhelm

Mæting í bólusetningu með bóluefni Janssen var heldur dræm í dag. Framkvæmdastjóri hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu segir að dyrunum hafi verið lokað klukkan fjögur

Bólusetningum með efni Janssen gegn kórónuveirunni var hætt í Laugardalshöllinni nú klukkan fjögur. Þetta staðfestir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við fréttastofu.

Eftir hádegi var ákveðið að hleypa öllum að sem vildu koma í bólusetningu með Janssen-efninu en mæting þeirra sem ekki fengu boð var undir væntingum. Alls voru 8.900 bólusett í dag, þar af 1.600 sem ekki fengu boð. 

Í dag var síðasti dagurinn fyrir sumarfrí hjá heilsugæslunni sem bólusett var með efni Janssen.

Því verður efnið ekki notað á höfuðborgarsvæðinu fyrr en einhvern tímann um miðjan ágúst.

Ragnheiður segir bóluefni ekki fara til spillis, þar sem það hafi verið blandað jafnt og þétt í gegnum daginn. Blandað bóluefni hefur heldur stuttan endingartíma en óblandað ætti það að geta enst langt fram yfir umrætt sumarfrí.

Seinni bólusetningar taka við

Á morgun verður bólusett með bóluefni Pfizer og er þar um að ræða seinni bólusetningu hjá þeim hópum sem boðaðir höfðu verið með handahófskenndum hætti.

Bólusetningu með efni AstraZeneca, sem til stóð að færi fram á fimmtudag, hefur verið frestað þangað til í næstu viku, þó með þeim fyrirvara að efnið berist hingað til lands í tæka tíð.

Frá 28. júní til 13. júlí verða eingöngu seinni bólusetningar, en eftir það tekur sumarfríið við. Þá verður bólusett með efnum Moderna og Pfizer, auk AstraZeneca með fyrirvara um afhendingu, samkvæmt vef heilsugæslunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.