Innlent

Varnarvirki í bígerð til að verja Grindavíkurbæ

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar. Vísir/Egill

Unnið er að hönnun varnarvirkja ef ske kynni að hraun úr Geldingadölum færi í átt að Grindavíkurbæ eða Reykjanesbraut. Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir missi af Suðurstrandarvegi en að það hefði orðið of kostnaðarsamt að verja hann.

„Það kemur til bæði vegna þess að tæknilega var þetta talsvert flókið og tíminn orðinn knappur. Síðan var ekki ljóst hvort þetta myndi duga og síðast en ekki síst var kostnaðurinn mikill og hljóp á hundruðum milljóna, þannig að öllu samanlögðu var ekki talið fært að reyna að breyta hraunrennslinu,“ segir Fannar, en ákvörðun var í gær tekin um að aðhafast ekki vegna hraunrennslis yfir Suðurstrandarveg.

Vegurinn mun því að líkindum fara undir hraun á næstu dögum, en hann er helsta tenging íbúa á Reykjanesi við Suðurlandsundirlendið.

„Þarna fer fólk og ferðamenn í þó nokkrum mæli fram og til baka, það eru líka þungaflutningar á þessum vegi og svo ein af afkomuleiðunum og leiðunum út úr bænum þegar á þarf að halda þannig að það er mjög slæmt að missa þennan veg.“

Kröftunum verður varið í að vernda Grindavík og nærliggjandi vegi.

„Ef við hugsum kannski til næstu þriggja ára, ef gosið stendur yfir svo lengi, þá kann að vera að á þeim tíma verði farið að huga að vörnum, ekki bara í átt til Grindavíkur heldur líka til norðurs að Reykjanesbrautinni og yfir hana jafnvel, ef gosiðstendur mjög lengi. Það er Suðurnesjalínan, þeas eina rafmagnslínan inn á svæðið,“ segir Fannar. Það sé þó ekki í náinni framtíð.

„En engu að síður þurfa menn að vera við ýmsu búnir. Það verður hugað að því núna ljúka við hönnun á slíkum mannvirkjum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.