Innlent

Til­laga um Pál í heiðurs­sætið var felld

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Páll Magnússon var oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi á kjörtímabilinu.
Páll Magnússon var oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi á kjörtímabilinu. vísir/vilhelm

Til­laga um að Páll Magnús­son tæki heiðurs­sæti á lista Sjálf­stæðis­flokksins í Suður­kjör­dæmi fyrir komandi þing­kosningar var felld með yfir­gnæfandi meiri­hluta á kjör­dæmis­ráði flokksins síðasta laugar­dag.

Páll er fyrsti þing­maður kjör­dæmisins og gaf hann kost á sér í fyrsta sæti í próf­kjöri flokksins í vor áður en hann dró fram­boð sitt nokkuð ó­vænt til baka. Þá þver­tók hann fyrir að það hefði nokkuð með ytri að­stæður í pólitíkinni að gera; hann hefði í raun á­kveðið að hætta á þingi fyrir löngu en viljað bjóða sig fram til öryggis ef ske kynni að hann skipti um skoðun.

Sjá einnig: Gefur ekki kost á sér fyrir næstu kosningar.

Ljóst er að Páll er ekki vin­sæll meðal stórs hóps í kjör­dæminu en af sam­tölum Vísis við ýmsa úr þeim ranni má skilja að þær ó­vin­sældir megi helst rekja til þess þegar Páll á­kvað að styðja ekki fram­boð Sjálf­stæðisflokksins fyrir síðustu bæjar­stjórnar­kosningar í Vest­manna­eyjum. Í kjöl­farið lýsti full­trúa­ráð flokksins í Eyjum yfir van­trausti á Pál. For­maður ráðsins minnti svo á þetta van­traust í að­draganda próf­kjörsins, áður en Páll á­kvað að draga fram­boð sitt til baka.Tillögu um Pál ekki vísað frá en hafnað með miklum meirihluta

Fyrstu sex sætin á lista Sjálf­­­stæðis­­­flokksins í Suður­­­kjör­­­dæmi ráðast af úr­­­slitum próf­­­kjörsins, sem Guð­rún Haf­­­steins­dóttir vann í maí. Á eftir henni koma svo þing­­­mennirnir Vil­hjálmur Árna­­­son og Ás­­­mundur Frið­riks­­­son.

21 manna kjör­­­nefnd raðar síðan upp neðri sætunum og leggur fram til­­­lögu að lista fyrir kjör­­­dæmis­ráð en í því sitja 108 með­limir.

Þegar sam­þykktur listi var birtur furðuðu sig margir á því að Páll væri ekki í heiðurs­­­sætinu, en það er síðasta sæti listans oft kallað, og töldu það jafn­vel endan­­­lega stað­­­festingu á því að Páll hefði hætt við að bjóða sig fram vegna lítils stuðnings í kjör­­­dæminu.

Í heiðurs­­sætinu situr Björn Bjarna­­son, fyrr­verandi ráð­herra flokksins og þing­­maður til margra ára. Það kom mörgum í opna skjöldu að hann hefði verið fenginn í það hlut­­verk en flestir tengja Björn við Reykja­­vík en ekki Suðurlandið; hann hefur setið á þingi fyrir bæði Reykja­víkur­­kjör­­dæmin og var odd­viti Sjálf­­stæðis­­flokksins í borgar­­stjórn.

Björn Bjarnason var þingmaður beggja Reykjavíkurkjördæmanna. Hann sat sem menntamálaráðherra 1995–2002 og dóms- og kirkjumálaráðherra 2003–2009.vísir/Baldur

Á kjör­dæma­ráðs­fundinum var þó lögð fram breytingar­til­laga á til­lögur nefndarinnar sem fólst í því að skipta Birni út fyrir Pál í heiðurssætið.

Þá var hins vegar lögð fram frá­vísunar­til­laga á þessa breytingar­til­lögu en hún var felld á jöfnum at­kvæðum. Voru þá at­kvæði greidd um hvort Páll skildi settur í heiðurs­sætið en hún var felld með af­gerandi meiri­hluta. Þetta staðfestir einn þeirra sem situr í kjördæmaráðinu við Vísi, Jarl Sigur­geirs­son, en hann situr einnig í sjötta sæti listans.

Ekki náðist í Pál við vinnslu fréttarinnar.

Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum.vísir/Stöð 2

Hefðu aldrei haft Reykvíking í heiðurssætinu

Í sam­tali við Vísi segir Hall­­dóra Berg­ljót Jóns­dóttir, for­­maður kjör­­nefndarinnar, að hún geti ekki tjáð sig um það sem fram fór inni í nefndinni – þar ríki trúnaður. Hún vill ekki svara því hvers vegna Páli var ekki boðið heiðurs­­sætið en segir þó:

„Það er engin hefð í þessu og menn ganga ekkert að neinu öruggu. Það er bara þannig og hefur verið síðan Suður­­kjör­­dæmi var stofnað. Þetta var bara niður­­­staðan núna enda Björn búinn að vinna gott starf fyrir land og þjóð í ára­tugi og er héðan úr kjör­­dæminu.“

Spurð hvort Björn sé ekki meiri Reyk­víkingur en nokkru sinni af Sunnlendingur þver­­tekur hún fyrir það: „Nei, nei, nei hann er með lög­heimili hérna hjá okkur. Við hefðum ekki farið að setja Reyk­víking í heiðurs­­sætið.“

Og sami tónn var í Birni þegar Vísir heyrði í honum. Hann er með lög­heimili sitt skráð á bænum Kvos­læk II í Fljóts­hlíð og segist búa á víxl þar og í Hlíðunum í Reykja­vík. „Ég er búinn að vera hér í Kvos­læknum síðan 2002. Hér höfum við verið með mikla starf­semi í gangi á sumrin og fengum meira að segja menningar­verð­laun Suður­lands í fyrra,“ segir hann.

Hann kveðst bæði spenntur og bjartsýnn fyrir komandi kosningum: „Ég er búinn að vera á ferðalagi um allt landið að kynna landbúnaðarstefnu með Kristjáni Þór Júlíussyni og það hefur gengið mjög vel.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.