Innlent

Sex mánaða fangelsi fyrir að stinga kærasta fyrrverandi kærustu

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur við Lækjartorg.
Héraðsdómur Reykjavíkur við Lækjartorg. Vilhelm Gunnarsson/Vísir

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag karlmann í sex mánaða fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás og fíkniefnabrot.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa stungið kærasta fyrrverandi kærustu og barnsmóður sinnar ítrekað með dekkjasíls.

Aðfaranótt laugardagsins 9. febrúar 2019 kl. 4:54 var lögreglu tilkynnt um hávaða og öskur sem barst frá stigagangi fjölbýlishúss í Reykjavík. Þar fóru fram mikil átök tveggja manna sem enduðu með því að annar þeirra stakk hinn margoft með dekkjasíls.

Samkvæmt brotaþola í málinu var ástæða átakanna að gerandi hafi verið að áreita kærustu brotaþola. Sá sakfelldi hélt því fram fyrir dómi að kærasta brotaþola hafi boðið honum í heimsókn en símagögn staðfesta að þau höfðu átt í samskiptum um nóttina.

Brotaþoli átti í fullu tré við gerandann og hafði náð honum undir þegar lögreglu bar að garði. Í aðkomuskýrslu lögreglu kemur fram að mennirnir hafi verið útataðir blóði þegar hún mætti á vettvang. 

Lögregla fann kassa fullan af hinum ýmsu fíkniefnum og stafrænni vog á árásarstaðnum. Árásarmaðurinn gekkst við því að vera eigandi fíkniefnanna fyrir dómi. 

Árásarmaðurinn hefur á bakinu óafplánaðan fangelsisdóm og því var honum dæmdur hegningarauki. Þá var honum gert að greiða fórnarlambi sínu 400.000 krónur í miskabætur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.