Innlent

Þrjár líkams­á­rásir og ofur­ölvi par á veitinga­stað með barn

Atli Ísleifsson skrifar
Margir hafa sótt skemmtanalífið í vikunni.
Margir hafa sótt skemmtanalífið í vikunni. Vísir/Kolbeinn Tumi

Tilkynnt var um þrjár líkamsárásir í Reykjavík í gærkvöldi og í nótt og þurfti lögregla á höfuðborgarsvæðinu að hafa afskipti af nokkrum fjölda fólks vegna ölvunar.

Um kvöldmatarleytið var tilkynnt um ofurölvi par með átta ára barn sitt á veitingastað í miðborg Reykjavíkur. Faðirinn var handtekinn og síðan vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu fyrir brot á lögreglusamþykkt, en hann hafði ekki farið að fyrirmælum lögreglu og fleira. Segir að unnið hafi verið að málinu með Barnavernd.

Um klukkan 23 var til um líkamsárás í hverfi 108. Þar hafði gestkomandi maður veitt húsráðanda, ungri konu, áverka og síðan stolið úlpu, símum og ýmsu fleiru, en árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.

Um klukkan eitt í nótt var tilkynnt um tvær líkamsárásir í miðborginni. Í öðru tilvikinu hafði verið ráðist á tvo ölvaða menn og þeim veittir áverkar. Árásarmennirnir voru sagðir vera fimm eða sex, en þeir voru farnir þegar lögregla kom á staðinn.

Skömmu síðar var svo tilkynnt um aðra líkamsárás þar sem árásarmennirnir voru sagðir vera tveir, en einnig þeir voru farnir af vettvangi þegar lögregla kom. Sá sem varð fyrir árásinni var með ljótan skurð á augabrún og fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild Landspítala, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Ofurölvi stúlka handtekin

Einnig segir frá því að á öðrum tímanum í nótt hafi ofurölvi stúlka verið handtekin í hverfi 110, en hún er sögð hafa verið að tálma störf lögreglu, ekki farið að fyrirmælum og reynt að slá lögreglumann. Stúlkan var vistuð sökum ástands í fangageymslu lögreglu, en lögreglumenn voru að aðstoða aðra ofurölvi stúlku.

Í dagbók lögreglu segir einnig frá því að maður í annarlegu ástandi hafi verið handtekinn fyrir að brjóta rúðu í bíl í miðborginni. Skömmu fyrir klukkan eitt var svo tilkynnt um mann sem hafði dottið af rafmagnshlaupahjóli og brotið tvær eða þrjár tennur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×