Innlent

Átta mánaða fangelsi fyrir kyn­­ferðis­brot gegn ein­hverfum manni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn var dæmdur í átta mánaða fangelsi, sem er skilorðsbundið að hluta. 
Maðurinn var dæmdur í átta mánaða fangelsi, sem er skilorðsbundið að hluta.  Vísir/Vilhelm

Karlmaður var dæmdur í átta mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum en huti refsingarinnar er skilorðsbundinn. Hann er dæmdur fyrir að hafa nýtt sér yfirburði sína og aðstöðumun gagnvart manni með þroskahömlun og brotið á honum kynferðislega. Þá er honum gert að greiða brotþola 800 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn hafði í tvö skipti mök við þolandann, annars vegar haustið 2018 og hins vegar í mars 2019. Í bæði skiptin er hinum ákærða gert það að sök að hafa haft endaþarmsmök við manninn en í síðara skiptið haldið áfram þrátt fyrir að brotaþolinn hafi beðið hann um að hætta.

Þann 7. mars 2019 leitaði brotaþoli til lögreglu og tilkynnti að maðurinn hefði nauðgað honum. Manninum var þá vísað á neyðarmóttöku til skoðunar. Þar ræddi brotaþoli við lögreglu og lýsti því að hann hafi kynnst ákærða á netspjalli og þeir hist tvisvar. Í fyrra tilvikinu hefði ákærði haft samfarir við brotaþola í endaþarm þar sem þeir voru staddir í bifreið.

Í síðara skiptið, sem hefði verið þennan sama dag 7. mars, hefi brotaþoli farið til Reykjavíkur og heimsótt ákærða. Þar hefði ákærði haft samfarir við hann um endaþarm, og haldið áfram eftir að brotaþoli bað hann um að hætta. Eftir atvikið hafi ákærði verið með hníf inni í stofu sem hefði vakið upp ótta hjá brotaþola. Greindi hann jafnframt frá því að maðurinn hafi ítrekað þrýst á hann að koma í heimsókn.

Ákærði var handtekinn samdægurs og húsleit gerð heima hjá honum. Hann kvaðst þekkja brotaþola og viðurkenndi að hafa átt við hann mök þennan dag en það hafi verið með samþykki þeirra beggja. Þá kvaðst hann hafa verið að brýna hníf í stofunni þegar brotaþoli var á staðnum og hafi ekki gert það til að vekja hjá honum ótta. Þá hefði hann ekki áttað sig á því að brotaþoli væri þroskaskertur eins og fram kemur í dómnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×