Tónlist

Kominn með al­gjört ógeð á sam­fé­lags­miðlum í dag

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ólafur Arnalds er fyrsti gestur Bergþós Mássonar í hlaðvarpinu Bransakjaftæði.
Ólafur Arnalds er fyrsti gestur Bergþós Mássonar í hlaðvarpinu Bransakjaftæði. Benjamin Hardman

Ólafur Arnalds er einn árangurríkasti tónlistarmaður Íslands. Lögin hans streymast í milljónatali á Spotify og uppselt er á tónleika um allan heim. Í fyrsta þættinum af annarri þáttaröð af hlaðvarpinu Bransakjaftæði talar Ólafur um praktísku hlið ferilsins síns.

„Til að byrja á byrjuninni þá fæ ég rosa mikinn áhuga á kvikmyndatónlist þegar ég er svona fjórtán eða fimmtán ára. Eins eru amma mín og afi miklir klassískir aðdáendur og ég heyrði mikið af klassískri tónlist heima hjá þeim.“

Klippa: Bransakjaftæði - Ólafur Arnalds

Byrjaði allt á þýsku metal bandi

Ólafur hafði verið að fikta við píanóið heima hjá foreldrum sínum en eftir að hann uppgötvaði kvikmyndatónlist byrjaði hann að semja sjálfur. Svo breyttist allt þegar hann var að spila með pönkbandinu sínu og þeir voru að hita upp fyrir þýska metal-hljómsveit.

„Ég átti einhver demó og gaf gítarleikaranum. Hann verður ástfanginn af því sem ég er að gera.“

Gítarleikarinn bað Ólaf að semja kafla til þess að hafa á milli laga hljómsveitarinnar fyrir plötuna þeirra.

„Metal fólk fílar drama og klassík er drama,“ segir Ólafur og hlær. Hann samdi þrjú stutt lög fyrir plötuna, þá fimmtán eða sextán ára gamall. Platan fór á topp tíu lista í mörgum löndum í Evrópu og víðar og fóru hjólin þá að snúast.

„Út frá því er mér boðinn einhver útgáfusamningur en ég hafði aldrei spáð í að gera plötu, ég var bara að leika mér í bílskúrnum heima.“

Í kjölfarið samdi Ólafur fyrstu plötu sína, Eulogy for Evolution, sem kom út árið 2007. Hann var þá nítján ára.

Ólafur var verðlaunaður fyrir bestu tónlistina á BAFTA-verðlaunahátíðinni fyrir Broadchurch árið 2014.David M. Benett/Getty

Sendi skilaboð á Myspace

Þegar Ólafur var að byrja að ferðast erlendis til að koma fram, notaði hann samfélagsmiðilinn Myspace til að koma sér á framfæri. Hann kynntist líka nýju útgáfufyrirtæki í gegnum Myspace sem hann vann með þangað til 2014 þegar hann skrifaði undir hjá Universal.

„Ég byrjaði að túra aðeins og bóka sjálfur gigg. Ég þekkti einhverja stelpu sem vann á einhverjum rokkklúbbi í Þýskalandi og hún talaði við yfirmanninn sinn,“ segir Ólafur um fyrstu tónleikana erlendis sem sólólistamaður. „Ég náði að skrapa saman fyrir flug handa fjórum vinum mínum sem spila á strengjahljóðfæri,“ segir Ólafur.

„Það var enginn markaðssetning og ekki neitt í kringum þetta svo maður var bara að vona að það myndi eitthvað gerast í þessum bæ sem maður lenti í og svo nýta sér samfélagsmiðlana sem ég gerði rosalega mikið af á þessum tíma. Ég er kominn með algjört ógeð á þeim í dag en á þessum tíma var maður tvítugur og geðveikt til í að hanga á Myspace.“

Ólafur segir að hann hafi notað Myspace til þess að finna íbúa í smábæjunum sem hann var að fara að spila í.

„Ég addaði þeim sem vinum og sendi þeim skilaboð á Myspace:

Hæ ég heiti Óli og ég er frá Íslandi. Ég er að gera tónlist. Ég er að koma að spila í bænum þínum. Það verður geðveikt gaman ef þú mætir.

Þetta var eina markaðssetningin.“

Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum ofar í fréttinni. Hvað þurfti hann að gera til þess að komast á þann stað sem hann er á í dag? Hvernig er að túra um heiminn? Hvernig er að vinna með stórum plötufyrirtækjum? Hvernig er að reka svona batterí sem vinsæll tónlistarmaður er? Einnig ræða þeir Bergþór um fólkið sem kemur að þessu öllu saman; aðstoðarmenn, umboðsmenn, bókara, útgefendur og forleggjara.


Bransakjaftæði er hlaðvarpshluti Tónatals, sem miðar að því að efla þekkingu þeirra sem starfa við tónlist og stuðningsumhverfi þeirra. Bransakjaftæði er unnið í samvinnu við Útvarp 101 og Bergþór Másson er þáttarstjórnandi annarrar seríu. Tónatal er samstarfsverkefni ÚTÓN, Tónlistarborgarinnar Reykjavík, STEF, SFH og Íslandsstofu. Þættirnir birtast vikulega á Spotify og Vísi en jafnframt verða þeir spilaðir á Útvarp 101 á miðvikudögum klukkan 16. 


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.