Innlent

Borgarstjóri segir ekki standa til að viðhalda styttri opnunartíma

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist telja líklegt að styttri opnunartími myndi færa skemmtanahald út á götur og í heimahús.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist telja líklegt að styttri opnunartími myndi færa skemmtanahald út á götur og í heimahús. Vísir/Vilhelm

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir ekki standa til að viðhalda styttri opnunartíma skemmtistaða í miðborginni. Hann segist hins vegar myndu fagna því ef fólk byrjaði fyrr á kvöldin að skemmta sér og færi þá sömuleiðis fyrr heim.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Hugmyndir hafa komið upp um að viðhalda áfram styttri opnunartíma, sem lögregla segir hafa gefið góða raun í kórónuveirufaraldrinum. Dagur segir söguna hins vegar hafa sannað að styttri opnunartími leiði ekki endilega til meira öryggis og færri afbrota.

„Hættan er sú að ef styttri opnunartími verður viðvarandi þegar samkomutakmörkunum sleppir færist skemmtanahaldið einfaldlega út á stræti og torg og í íbúðarhverfi og heimahús af því að barir og veitingastaðir loka allir í einu,“ segir borgarstjóri í skriflegum svörum.

„Það hafa sannarlega orðið afgerandi og jákvæðar breytingar í afbrotatölfræðinni á meðan samkomutakmarkanir hafa verið í gildi. Þetta hefur verið tengt við styttri opnunartíma skemmtistaða og örugglega eitthvað til í því. Það má þó ekki gleyma því að samkomutakmarkanir vegna faraldursins hafa ekki síður haft áhrif á aðrar skemmtanir og partý í heimahúsum. Það hefur líklega ekki síður skilað sér í fækkun afbrota í ákveðnum brotaflokkum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.