Lífið

Þungur dynkur og hrópað „aðstoð, aðstoð!“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Komið er að unga fólkinu í bólusetningu en sá hópur er viðkvæmari gagnvart stungum og líklegra til að falla í yfirlið.
Komið er að unga fólkinu í bólusetningu en sá hópur er viðkvæmari gagnvart stungum og líklegra til að falla í yfirlið. Vísir/SigurjónÓ

„Aðstoð, aðstoð,“ heyrðist kallað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar þegar ég lagði leið mína í Laugardalshöll í bólusetningu með bóluefni Janssen í gær. Hjúkrunarfræðingur að tilkynna fólki að einstaklingur hefði fallið í yfirlið. Daglegt brauð í Laugardalshöll og líklegra hjá ungu fólki. 

Ég átti bókað í Moderna á miðvikudaginn en ákvað að slá tvær sprautur í einu höggi, ef svo má segja. Unga fólkið hafði ekki mætt sem skyldi framan af degi og eftir hádegið voru svo til allir velkomnir. Bóluefni ætti ekki að fara til spillis. Janssen er bara ein sprauta og fínt að ljúka þessu af. 

Sú var tíðin að tónlistin dunaði í Laugardalshöll en það var enginn Daddi diskó þegar ég rölti inn í salinn. Einn karlmaður lá á gólfinu á bakinu með fæturnar uppi á stól en annars virtist allt með kyrrum kjörum.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, var á vappinu í Laugardalshöllinni í gær. Ekki minnkaði það öryggistilfinninguna enda vandfundnari manneskja með jákvæðra viðmót.Vísir/SigurjónÓ

Sæti á öðrum bekk beið mín. Fólk bretti upp ermar eða fór úr yfirhöfn svo öxlin beið ber eftir stungunni. Svo voru þær mættar. Með vagnana og sprauturnar. Spennan var mikil en minna stress. Í mínu tilfelli hjálpaði mögulega reglulegar heimsóknir í Blóðbankann hvað það varðaði, „humblebrag“ allan daginn.

Svo tók þetta eina sekúndu. Ef það. Viðbrögðin í kringum mig voru misjöfn. Næsti maður við hliðina á mér fékk plástur, ekki ég. Mistök? „Heyrðu, á ég ekki að fá plástur,“ spurði ég og fékk þau svör að plástur þurfi aðeins þegar blæði við stunguna. Eðlilega. Heimskuleg spurning. Umkringdur hjúkrunarfræðingum í teymi Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur líður manni þó eins og engar spurningar séu heimskulegar spurningar.

Rankaði strax við sér

Augnabliki síðar þungur dynkur. Mér krossbrá. „Aðstoð, aðstoð!“ kallaði hjúkrunarfræðingurinn en ungur karlmaður hafði hrunið úr sæti sínu með þvílíkum látum, augnablikum eftir að hafa verið sprautaður. Síminn hans lá á gólfinu en aðeins nokkrar sekúndur liðu áður en hann rankaði við sér, og glotti.

Flestir voru með símana á lofti enda nokkurra mínútna bið eftir sprautu. Að henni lokinni á fólk svo að sitja kyrrt í að minnsta kosti tólf mínútur áður en því er hleypt út sé allt í góðu lagi.Vísir/SigurjónÓ

Fyrstu viðbrögð? Hann spurði vini sína í næstu sætum hvort þeir hefðu náð snappi af honum. Fyrir eldri kynslóðina þýðir það að taka upp myndband, fyrir samfélagsmiðilinn Snapchat. Nei, þeir náðu því ekki. Okkar maður varð fyrir vonbrigðum en ekki vantaði þjónustuna hjá starfsfólkinu í Laugardalshöll.

„Þú færð baksviðspassa,“ sagði eldhress heilbrigðisstarfsmaður sem kom með hjólastól fyrir kappann. Upp í stól og rúllað í burtu.

„Ég sagði ykkur að þetta myndi gerast,“ sagði ungi maðurinn enn að hugsa vinum sínum þegjandi þörfina að hafa ekki náð hruninu á upptöku.

Vinirnir hlógu og kipptu sér lítið upp við þetta.

Stóísk ró starfsfólksins

En hvað er málið? Annar hrundi í gólfið, og svo þriðji. Eflaust fleiri aftar í salnum. Forvitni mín var mikil. Fólkið í bólusetningu í gær var í yngri kantinum, enda flestir þeir eldri fyrir löngu búnir að fá eina eða jafnvel tvær sprautur.

„Þetta virðist fara eftir aldri,“ segir pollrólegur lögreglumaður við mig á leiðinni út. Hann bætir líka við að það sé alveg jafnalgengt að fólk hrynji í jörðina fyrir sprautu og eftir sprautu.

Starfsfólkið tók öllu með stóískri ró. Hvatti fólk til að liggja rólegt á gólfinu meðan það væri að jafna sig. Sem það gerði. Fyrir hina stressuðu sem sátu á aftari bekkjum var örugglega ekki að hjálpa með stressið að sjá skrokkana falla í gólfið.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir þetta allt saman eðlilegt. Áhyggjufullt fólk ætti þó að undirbúa sig vel andlega fyrir bólusetningu, fá sér gott að borða og vera vel útsofið.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fékk AstraZeneca sprautu í lok apríl. Hans kynslóð er ekki jafnviðkvæm fyrir sprautunum og þau sem yngri eru.Vísir/Vilhelm

„Þetta er vel þekkt í bólusetningu að yngra fólkið bregst svona við. Þetta hefur ekkert með bóluefnið sjálft að gera heldur þessar kringumstæður sem fólk er í. Nálin og sprautan og allt sem gerir að verkum að það getur komið stutt blóðþrýstingsfall sem veldur því að líður yfir fólk,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

„Ég held að fólk geti verið mjög rólegt með þetta. Þetta er ekki alvarlegt,“ segir Þórólfur. Ekki sé um ofnæmisviðbrögð að ræða vegna bóluefnis né neitt slíkt.

Fólk geti undirbúið sig andlega fyrir það sem fari fram.

„Þetta mikla fjölmenni, að standa í röð og bíða, svo að sitja og bíða eftir sprautunni. Þetta getur verið yfirþyrmandi fyrir yngra fólk. En ef fólk undirbýr sig andlega, sé ekki fastandi, hafi borðað vel og svoleiðis ætti það að geta verið áhyggjulaust,“ segir Þórólfur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.