Aftakaveður hefur valdið því að ferðavagnar hafa fokið af plani verslunar Útilegumannsins í Mosfellsbæ. Vænta má að tjón hlaupi á milljónum króna. Ekki náðist í starfsmenn verslunarinnar við vinnslu fréttarinnar enda voru þeir í óða önn að bjarga því sem bjargað varð.
Fyrr í kvöld fékk Vísir ábendingu þess efnis að bíll með hjólhýsi í eftirdragi hafi fokið út af Vesturlandsvegi á Kjalarnesi. Veðurstofan varar við hvassviðri undir fjöllum á vesturlandi og segir aðstæður varasamar ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Athugið: Mjög hvasst er undir fjöllum um vestanvert landið. Bílar með hjólhýsi hafa fokið út af veginum á á Kjalarnesi, á sunnanverðu Snæfellsnesi og undir Ingólfsfjalli. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) June 11, 2021
Þá hefur fréttastofa einnig fengið veður af því að bíll með hjólhýsi hafi fokið út af veginum við Biskupstungur á suðurlandi.