Innlent

Glitti í sól­myrkvann á höfuð­borgar­svæðinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sólmyrkvinn sást frá höfuðborgarsvæðinu í morgun þegar rofaði til.
Sólmyrkvinn sást frá höfuðborgarsvæðinu í morgun þegar rofaði til. Sævar Helgi/Bjössi Sigmars

Nokkrir heppnir íbúar á höfuðborgarsvæðinu sáu glitta í sólina – og já, mánann í leiðinni – á milli skýjanna í morgun. Skýjað hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í dag og var því viðbúið að Íslendingar fengju ekki að berja sólmyrkva augum.

Það rofaði þó til og sást til sólmyrkvans. Þeir Bjössi Sigmars og Sævar Helgi Bragason, eða Stjörnu-Sævar eins og hann er betur þekktur, náðu glæsilegum myndum af náttúruundrinu.

Sólmyrkvinn í dag er svonefndur deildarmyrkvi en þá skyggir tunglið á hluta skífu sólar frá jörðu séð. Frá Reykjavík skyggir tunglið á 69 prósent skífu sólarinnar en mestur varð myrkvinn á Ísafirði, 73 prósent. Myrkvinn er mun minni en sá sem gekk yfir landið 20. mars árið 2015 en þá skyggði tunglið 97 prósent af skífu sólarinnar.

Sólmyrkvinn hófst klukkan 9:06 í Reykjavík og lýkur klukkan 11:33. Því er ekki seinna vænna en að áhugasamir Íslendingar drífi sig út til að reyna að sjá glitta í undrið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×