Innlent

Sjáðu sólmyrkvann í beinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Deildarmyrkvinn líkt og hann mun líta út í Reykjavík 10. júní kl. 10:17. Þá skyggir tungl á 69% af þvermáli sólar og veldur 61% myrkvun.
Deildarmyrkvinn líkt og hann mun líta út í Reykjavík 10. júní kl. 10:17. Þá skyggir tungl á 69% af þvermáli sólar og veldur 61% myrkvun. Veðurstofan/Þórður Arason

Skýjað og rigning er nú víða á landinu þegar deildarmyrkvi á sólu fer yfir fyrir hádegið. Myrkvinn sést þó víðar á norðurhveli og hægt er að fylgjast með honum í beinu streymi á Vísi.

Sólmyrkvinn í dag er svonefndur deildarmyrkvi en þá skyggir tunglið á hluta skífu sólar frá jörðu séð. Frá Reykjavík skyggir tunglið á 69% skífu sólarinnar en stærstur verður myrkvinn á Ísafirði, 73%. Myrkvinn er mun minni en sá sem gekk yfir landið 20. mars árið 2015 en þá skyggði tunglið á 97% af skífu sólarinnar.

Tunglið byrjar að ganga fyrir sólina klukkan 9:06 í Reykjavík og nær myrkvinn hámarki sínu klukkan 10:17. Myrkvanum lýkur klukkan 11:33.

Tvísýnt er um hvort að myrkvinn verði sjáanlegur á Íslandi. Í höfuðborginni er skýjað og skúrir og spáð er rigningu víða um landi. Engu að síður er þó mögulegt að það rofi til nógu lengi einhvers staðar til að hægt verði að sjá myrkvann á einhverju stigi hans.

Myrkvinn verður þó ekki aðeins sjáanlegur frá Íslandi. Annars staðar á norðurhveli sést svonefndur hringmyrkvi en hann verður þegar tunglið er aðeins of langt til þess að fylla út í skífu sólar þannig að ljóshringur sést í kringum tunglið þegar það gengur fyrir sólina.

Slíkan myrkva má sjá frá Kanada, Grænlandi, norðurpólnum og norðaustanverðu Rússlandi. Hægt er að fylgjast með hringmyrkva í beinu streymi vefsíðunnar Time and Date hér fyrir neðan. Hér er svo samantekt Forbes á fleiri streymum frá myrkvanum.


Tengdar fréttir

Gæti glitt í sól­myrkvann á milli rigningar­skýjanna

Útlit er fyrir að það rigni víðast hvar um landið þegar deildarmyrkvi á sólu gengur yfir í fyrramálið. Sérfræðingur Veðurstofu Íslands segir þó mögulegt að það rofi til inn á milli þannig að myrkvinn verði sjáanlegur, jafnvel á höfuðborgarsvæðinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.