Lífið

Barns­hafandi starfs­fólk Land­spítala fær loks nýjar ó­léttu­buxur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Buxurnar uppfylla sænska staðla.
Buxurnar uppfylla sænska staðla. Skjáskot

Barnshafandi starfsfólk Landspítala getur glaðst á ný en nýjar óléttubuxur eru við það að fara í dreifingu á spítalanum. Alla jafna eru hundrað konur óléttar á spítalanum hverju sinni, það er starfsmenn, og hafa óléttubuxurnar hingað til ekki þótt vænlegur kostur.

„Óléttubuxurnar hafa ekki verið að uppfylla okkar kröfur og þær hafa verið lítið notaðar af óléttum konum. Þær kjósa frekar að nota venjulegar buxur sem eru heldur ekki heppilegar, þannig að það hefur verið mikill skortur og vöntun á góðum óléttubuxum,“ segir Arna Lind Sigurðardóttir, deildarstjóri vöruþjónustu Landspítala, í myndbandi sem birtist á Facebook-síðu spítalans í dag.

Hún segir að lengi hafi verið beðið eftir góðum óléttubuxum á spítalanum.

„Þær eru að koma í hús núna. Við erum að undirbúa að þær fari í umferð á næstu vikum og þetta eru buxur sem fylgja sænskum staðli. Þetta er hluti af fataverkefni sem hefur verið í þróun undanfarin ár og er að komast á síðustu skref núna,“ segir Arna.

Meðal nýjunga á nýju óléttubuxunum eru vasar á hlið skálmanna, þær eru mjúkar og úr þykku efni sem ekki er gegnsætt.

„Óléttubuxurnar eru teygjanlegar, mjög þægilegar og með mjúka breiða teygju sem fer yfir kviðinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×