Lífið

Vagínuvald Jóhannesar Þórs og Guð­rúnar Drafnar talar beint inn í MeToo

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Fram­kvæmda­stjóri og lektor koma saman til að ögra fólki og vekja það til um­hugsunar.
Fram­kvæmda­stjóri og lektor koma saman til að ögra fólki og vekja það til um­hugsunar. vísir/Vagina Power

Gjörninga­hópurinn Vagínuvald, eða Vagina Power, segir sýningu sína á Skóla­vörðu­stíg tala beint inn í #MeT­oo-byltinguna. Sýningunni er ætlað að vekja fólk af dvala og fá það til að taka þátt í um­ræðunni.

Með­limir hópsins eru tveir, hvorugur lærður lista­maður og hér í nokkuð ó­hefð­bundnu hlut­verki; Guð­rún Dröfn Whitehead, lektor í safna­fræði við Há­skóla Ís­lands, og Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar.

Stöð 2 leit við á opnun sýningarinnar Light Your Fires síðasta föstu­dag en hún er haldin í Skúma­skoti, sal á Skóla­vörðu­stíg 21a, og stendur fram yfir næstu helgi.

Konur eiga að vera háværar

„Þetta er í rauninni sýning sem að gengur út á það að ögra við­teknum normum í sam­fé­laginu eins og svo mikið af list gerir. Við erum með femínískar rætur á bak við þetta og erum í raun ekki að pró­mótera á­kveðin skila­boð heldur að reyna að búa til upp­lifun fyrir á­horf­andann sem hann getur tekið úr sín hug­hrif,“ sagði Jóhannes Þór.

Guð­rún Dröfn segir nafn hópsins tekið af veggja­kroti sem hún sá inni á þýsku kvenna­klósetti. Sýningin á að tala inn í #MeT­oo-byltinguna. „Konur eiga að vera há­værar. Konur eiga að vera ná­kvæm­lega eins og þær vilja vera; þær eiga að vera grófar og reiðar og há­værar og að krefjast meira,“ segir Guð­rún Dröfn.

Og Jóhannes Þór tekur undir þetta: „Eitt af vanda­málunum við þá um­ræðu sem hefur verið í gangi undan­farin ár er að karl­menn eru ekki að taka þátt í femínískri um­ræðu. Við þurfum öll að taka þátt í svona réttinda­bar­áttu. Það er ekki nóg að sitja bara og bíða eftir að allt gerist.“

Femínískt raf-pönk

Á sýningunni er gestum boðið að setjast að borði og „upp­lifa hið fal­lega, rotna, frá­brugðna, ör­magna og ó­skipu­lagða.“ Hópurinn Vagínuvald skil­greinir sig sem ís­lenskan raf-pönk gjörninga­hóp sem fram­leiðir vídeó­verk, hljóð­verk, ör­ljóð og ljós­myndir.

Verkin eru meðal annars byggð á kenningum femínísma og nota ó­þægi­legt mynd­efni tekið á hvers­dags­legum stöðum, ein­hæfa raf­tón­list, um­hverfis­hljóð og gróft mál­far.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×