Innlent

Telja líkur á manns­látum vegna undir­mönnunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Bráðalæknar segja möguleg alvarleg atvik sem kunni að koma upp vegna manneklu í sumar vera á ábyrgð stjórnenda Landspítalans og ríkisstjórnarinnar.
Bráðalæknar segja möguleg alvarleg atvik sem kunni að koma upp vegna manneklu í sumar vera á ábyrgð stjórnenda Landspítalans og ríkisstjórnarinnar. Vísir/Vilhelm

Yfirgnæfandi líkur eru á alvarlegum atvikum og jafnvel mannslátum í sjúklingaþjónustu á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi vegna undirmönnunar, að mati Félags bráðalækna. Stjórnendur spítalans og ríkisstjórnin beri ábyrgð á því.

Ekki næst skilgreind neyðarmönnun bráðalækna á bráðdeildinni í Fossvogi þessa stundina og í allt sumar, að því er segir í ályktun sem Félag bráðalækna sendi frá sér í dag. Í sumar verði að megninu til fimm vaktalínur en stundum færri. Í verkföllum er gert ráð fyrir sjö vaktalínum.

Með þessu telja bráðalæknar að Landspítalinn og íslenska ríkið þvingi þá og annað heilbrigðisstarfsfólk til vinnu við óviðunandi aðstæður. Embætti landslæknis, heilbrigðisráðherra og framkvæmdastjórnspítalans hafi verið fullkunnugt um að í þetta stefndi í sumar.

„Það er algjörlega ljóst að á bráðadeild Landspítala er verið að stofna veikum og slösuðum sjúklingum í hættu með grafalvarlegri undirmönnun. Líkur á alvarlegum atvikum og jafnvel mannslátum í sjúklingaþjónustu eru yfirgnæfandi. Öryggi sjúklinga er ekki tryggt. Lífi og heilsu landsmanna er stefnt í hættu,“ segir í ályktuninni sem var samþykkt á aðalfundi félagsins í gær.

Krefjast bráðalæknar þess að landlæknir knýi á um tafalausar úrbætur af hálfu framkvæmdastjórnar og forstjóra Landspítalans.

„Komi til alvarlegra atvika á bráðadeild sem rekja má til manneklu, ófullnægjandi starfsaðstöðu eða annarra tengdra þátta, vísum við allri ábyrgð á þeim atvikum til forstjóra Landspítala, Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem æðsta yfirmanns heilbrigðismála, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Alþingis sem fer með fjárveitingarvald ríkisins,“ ályktuðu bráðalæknar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×