Innlent

Mælir ekki með að bólu­settir láti mæla mót­efna­svar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, mælir ekki með því að fólk láti mæla hversu sterkt mótefnasvar það er með eftir bólusetningu. 
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, mælir ekki með því að fólk láti mæla hversu sterkt mótefnasvar það er með eftir bólusetningu.  Vísir/Vilhelm

Rannsóknarstofan Sameind býður nú bólusettum að koma til sín og láta mæla hversu sterkt mótefnasvar þeir eru með við Covid-19 eftir bólusetningu. Sóttvarnalæknir mælir ekki með því að fólk nýti sér það og segir verndina, sem bóluefnið veitir, háða öðrum þáttum en mótefnasvari.

„Nei, ég mæli alls ekki með því og það er í raun og veru enginn sem gerir það vegna þess að þó að sterk fylgni sé á milli mótefnasvars og verndarinnar þá er verndin háð öðrum þáttum sem er ekki verið að mæla,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, í samtali við fréttastofu.

„Það að fá bara mótefnamælingu það getur skapað mikinn óróleika og ugg hjá fólki sem er ekki með mjög há mótefni. Það þarf að túlka þessa niðurstöðu fyrir fólki þannig að ég mæli alls ekki með því að fara í mótefnamælingu nema að höfðu samráði við lækni.“

Hann segir þurfa að taka tillit til ýmissa annarra þátta í ónæmiskerfinu.

„Það er bara ónæmiskerfið, sem er mjög flókið, það er svokallað frumubundið ónæmi svo er annars konar ónæmi sem spilar líka stórt hlutverk í vernd gegn sýkingum, sem er ekki verið að mæla með þessum mótefnum, þannig að þetta er svolítið yfirdrifið finnst mér,“ segir Þórólfur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.