Innlent

Guðni og Eliza heim­sækja Ölfus

Atli Ísleifsson skrifar
Heimsóknin hefst í Herdísarvík klukkan 10 á mánudagsmorgun.
Heimsóknin hefst í Herdísarvík klukkan 10 á mánudagsmorgun. Vísir/Vilhelm

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og frú Eliza Reid halda í opinbera heimsókn til Ölfuss á mánudaginn. Heimsóknin stendur í einn dag en þar munu þau kynna þau sér ýmsa starfsemi í sveitarfélaginu og heimsækja grunnskólann, fyrirtæki og stofnanir.

Í tilkynningu frá skrifstofu forsetans segir að heimsókn forsetahjónanna hefist í Herdísarvík klukkan tíu að morgni þar sem Elliði Vignisson bæjarstjóri mun taka á móti þeim ásamt Gesti Þór Kristjánssyni, forseta bæjarstjórnar.

„Því næst verður fiskeldið Laxar sótt heim þar sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins, Jens Garðar Helgason, kynnir starfsemina auk þess sem Ingólfur Snorrason og Halldór Ólafur Halldórsson segja frá fiskeldisstöðinni Landeldi.

Klukkan 11:40 verða forsetahjónin viðstödd vorhátíð Grunnskóla Þorlákshafnar. Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri tekur á móti gestum og þar verða fjölbreytt tónlistaratriði og veitingar í boði auk þess sem forsetinn ávarpar viðstadda og færir sveitarfélaginu gjöf.

Eftir hádegi heimsækja forsetahjónin hafnarskrifstofur Þorlákshafnar þar sem Hjörtur Jónsson hafnarstjóri tekur á móti þeim og kynnir fyrir þeim framtíðaráform um stækkun hafnarinnar. Að því loknu halda forsetahjónin að Egilsbraut 9 þar sem dagdvöl eldri borgara er staðsett. Forsetahjónin kynna sér starfið þar, þiggja kaffi og spjalla við viðstadda.

Síðasti viðkomustaður forsetahjónanna er Hjallakirkja, sögufrægur staður þar sem Skapti Þóroddsson lögsögumaður bjó á 11. öld og síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti var handtekinn árið 1541. Formaður sóknarnefndar, Hjörleifur Brynjólfsson, tekur á móti gestunum og segir frá staðnum. Gildandi sóttvarnarreglum verður fylgt þar sem það á við,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×