Þeir sem eftir stóðu af forgangshópum og með undirliggjandi sjúkdóma voru boðaðir í Pfizer-sprautu í Laugardalshöll í morgun.
Þegar 2.500 skammtar stóðu eftir voru fyrstu árgangarnir dregnir út, karlar fæddir 1999 og konur fæddar 1982. Eftir það fengu karlar fæddir 1987 og konur fæddar 1996 skyndiboð. Þau þurftu að drífa sig af stað og sáust margir á harðahlaupum í Laugardalnum til að missa ekki af skammti.
Bóluefnið hefur bara ákveðinn endingartíma og rennur út eftir hann. Heilbrigðisstarfsmenn voru því í kapphlaupi við tímann í dag við að koma út öllu því bóluefni sem var á síðasta séns.
„Við höfum sex tíma glugga til að vinna með og þetta var dáldið tæpt. Fyrir svona hálftíma síðan áttum við eftir svona 200 skammta þannig að við köstuðum út stóru neti í restina, við vildum alls ekki missa þetta,“ sagði Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Þetta eru konur fæddar 1983 sem við köstuðum út neti til, því miður þurfa þær margar að fara heim [óbólusettar] en við náðum að klára.“
Ragnheiður segir eðlilegt að ekki allir, sem fá boð, komist í bólusetningu. Þeir megi því búast við nýrri boðun á næstu dögum.
„Það er alltaf þannig þegar við erum með svona boðun samdægurs þá komast eðlilega ekki allir. Þannig að við reynum næst að klára þessa árganga sem við boðuðum í dag. Þetta eru árgangar sem eru komnir í forgang hjá okkur og við klárum þá,“ segir Ragnheiður.
Hún segist hafa búist við því að bólusetningarnar gengju betur eftir að boðið var sent út.
„Já, ég átti alveg von á því. Við vorum að reyna að sópa upp og klára alla sem eru fæddir 1975 og fyrr, og alla með undirliggjandi sjúkdóma. Svo köstuðum við út stóru neti og sendum út 10 þúsund boðanir en áttum samt 2500 skammta í afgang þannig að þetta var dáldið stór pakki að brúa.“