Innlent

Veður­ofsinn lék borgar­búa grátt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mikil lægð gekk yfir Suðvesturhornið í gær. 
Mikil lægð gekk yfir Suðvesturhornið í gær.  Vísir/Vilhelm

Töluvert var um útköll vegna veðursins sem gekk yfir Suðvesturhornið í gær. Fjúkandi trampólín, hjólhýsi og hlutir af byggingarsvæðum voru sérstaklega áberandi í störfum björgunarsveitanna á höfuðborgarsvæðinu, sem voru kallaðar út síðdegis í gær og voru að störfum hátt til miðnættis. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Einn var handtekinn í Vesturbæ Reykjavíkur vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis. Sá var vistaður í fangaklefa lögreglu í nótt. Þá var karlmaður, sem var í annarlegu ástandi sökum ölvunar í miðbænum, vistaður í fangaklefa þar sem ekki tókst að koma honum til síns heima og hann ekki í ástandi til að vera úti á meðal fólks.

Ellefu voru stöðvaðir við akstur, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þá var allur gangur á því hvort þessir ökumenn væru með ökuréttindi.

Afskipti voru höfð af aðila vegna þjófnaðar í verslun í Austurborginni og var það mál afgreitt á staðnum. Þá var maður handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna húsinnbrots í Breiðholti. Maðurinn var mjög ölvaður og bíður hans skýrslutaka þegar Bakkus sleppir takinu af honum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×