Lífið

Stað­festa loks ástar­sam­bandið

Atli Ísleifsson skrifar
ASAP Rocky og Rihanna mæta til tískusýningar í London árið 2019.
ASAP Rocky og Rihanna mæta til tískusýningar í London árið 2019. Getty/Samir Hussein

Bandaríski rapparinn ASAP Rocky hefur staðfest að hann og söngkonan Rihanna eigi í ástarsambandi. Rapparinn segir frá því í viðtali við GQ að söngkonan sé „ást lífs síns“.

Orðrómur hefur verið uppi allt frá árinu 2013 um að þau hafi átt í sambandi, en ASAP Rocky fylgdi þá Rihönnu á tónleikaferðalagi sínu um heiminn, Diamonds World Tour.

Í viðtalinu segist ASAP Rocky vera handviss um að söngkonan sé „hin eina sanna“. Frá því að þó hófu ástarsambandið hafa þau gert allt sem í þeirra valdi stendur til að forðast ljósmyndara slúðurmiðlanna.

Rihanna og ASAP Rocky birtust bæði í myndbandi rapparans við lagið Fashion Killa frá árinu 2013.

ASAP Rocky segir að Rihanna hafi tvímælalaust veitt honum innblástur við gerð nýju plötu sinnar, en í hópi gestasöngvara á plötunni má meðal annars nefna Morrissey.

ASAP Rocky, sem heitir Rakim Mayers réttu nafni, vakti mikla athygli þegar hann var fundinn sekur um líkamsárás eftir áflog í Stokkhólmi í Svíþjóð árið 2019. Hlaut hann tveggja ára skilorðsbundinn dóm, en málið rataði í heimsfréttirnar eftir að þáverandi Bandaríkjaforseti, Donald Trump, tjáði sig um málið og sagði málsmeðferðina ósanngjarna og hvatti til þess að sænsk yfirvöld myndu láta málið niður falla.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×