Innlent

Hættu­stigi lýst yfir í Austur-Skafta­fells­sýslu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Óvenju mikið hefur verið um gróðurelda síðustu vikur.
Óvenju mikið hefur verið um gróðurelda síðustu vikur. vísir/vilhelm

Hættu­stigi hefur nú verið lýst yfir í Austur Skafta­fells­sýslu vegna hættu á gróður­eldum. Nánast allur vestur­helmingur landsins er nú skil­greindur sem hættu­svæði en Austur Skafta­fells­sýsla er eina svæðið á austur­helmingi landsins þar sem hættu­stigi hefur verið lýst yfir.

Afar lítil úr­koma hefur verið á svæðinu síðustu vikur og er á­fram þurrka­tíð í kortunum. Þær litlu skúrir sem hafa komið síðast­liðna daga hafa ekki verið nægi­legar til að bleyta jarð­veginn upp heldur hefur vætan gufað hratt upp. Þá hefur nætur­kuldi heldur ekki hjálpað til.

Mynd frá almannavörnum. Á gula svæðinu er nú í gildi hættustig en á ljósgulu höfuðborgarsvæðinu er óvissustig í gildi.almannavarnir

Þegar hættu­stig vegna gróður­elda er í gildi á svæði er bann þar við öllum opnum eldi. Al­manna­varnir í­treka í til­kynningu að það hafi lík­lega aldrei verið mikil­vægara en nú að fara sér­stak­lega var­lega með eld á grónum svæðum, sleppa grill­notkun og notkun á verk­færum sem hitna.

„Sumar­bú­staða­eig­endur í grónu landi eru hvattir til að vera undir það búnir að ráða við minni­háttar eld, því hver sekúnda getur skipt máli. Hægt er að verja hús og nánasta um­hverfi og slökkva elda sem eru á byrjunar­stigi með lág­marks­út­búnaði eins og eld­klöppum og garð­slöngu. Öryggi við­staddra er á­vallt mikil­vægast við slökkvi­störf og kalla skal strax út við­bragðs­aðila með því að hringja í 112,“ segir í til­kynningunni.

Þetta eru rétt við­brögð við gróður­eldum sam­kvæmt leið­beiningum al­manna­varna:

Fyrstu viðbrögð við gróðureldi eru að hringja í Neyðarlínuna 112, greina frá því hvar eldurinn er og lýsa staðsetningu og staðháttum.

Leggðu mat á aðstæður og reyndu að slökkva eldinn sem fyrst ef aðstæður leyfa án þess að taka áhættu, hafðu eigið öryggi alltaf í forgangi.

Sækja skal að eldi undan vindi þannig að reykmengun hindri ekki yfirsýn og aðgerðir. Reykur frá gróðureldum í of miklu magni getur verið lífshættulegur.

Klöppur, skóflur eða önnur áhöld og vatn ættu alltaf að vera tiltæk.

Sé ekki ráðið við eldinn, t.d. vegna hvassviðris, skal gera ráðstafanir og mynda eldvarnarlínu í nægilegri fjarlægð undan vindi, til dæmis með því að bleyta í gróðri eða ryðja honum í burtu.

Það sem almenningur og sumarhúsaeigendur eru beðnir um að hafa í huga:

Ekki kveikja eld innan sem utandyra (vinnuvélar, kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira).

Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill þar sem gróður er þéttur.

Kanna flóttaleiðir við sumarhús.

Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun.

Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista.

Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta).

Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.