Innlent

Flóttafólk svelt til hlýðni

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata. vísir/Vilhelm

„Nú eru tíu umsækjendur um alþjóðlega vernd komnir á götuna eftir að Útlendingastofnun henti þeim út og svipti þá framfærslu. Skítt með mannúð og mannréttindi, það á að svelta þetta flóttafólk til hlýðni þannig að sé hægt að pína það aftur í óboðlegar aðstæður í gríska hæliskerfið,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata á Alþingi í dag. 

Hann gagnrýndi stefnu íslenskra stjórnvalda í útlendingamálum harðlega og sagði réttnefni hennar vera „Út á guð og gaddinn“.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var rætt við Ahmed Irheem, frá Gaza í Palestínu. Honum hefur verið synjað um alþjóðlega vernd hér á landi án þess að umsókn hans hafi verið tekin til efnislegrar meðferðar þar sem hann hefur áður hlotið vernd í Grikklandi. Til stendur að endursenda hann þangað en Rauði krossinn hefur ítrekað sagt það ekki vera forsvaranlegt þaí ljósi þess að aðstæður flóttamanna séu óboðlegar. 

Ahmed hefur ásamt fleiri umsækendum neitað að fara í covid-próf sem er forsenda flutnings úr landi. Í kjölfar þess hefur Útlendingastofnun svipt þá þjónustu.

Andrés Ingi benti á að í hópi þeirra tíu einstaklinga sem búið sé að svipta þjónustu séu Palestínumenn og kallaði eftir raunverulegum stuðningi með palestínsku þjóðinni.

„Hvað með til dæmis samstöðu með þeim einstaklingum sem hafa þurft að flýja átökin undanfarna daga? Það hafa hellst yfir okkur fréttir af umsækjendum um alþjóðlega vernd sem íslensk stjórnvöld ætla að endursenda til Grikklands. Í þeim hópi er meðal annars fólk sem fyrst flúði ástandið í Gasa og fékk hæli á Grikklandi. Þurfti svo aftur að leggja á flótta úr ónýtu verndarkerfi Grikklands. Þessu fólki ætla íslensk stjórnvöld ekki einu sinni að sýna þá virðingu að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar.“

„Það dugar ekki að fordæma ofbeldi almennum orðum en fara eins og köttur í kringum heitan grautinn að gera eitthvað í alvöru,“ sagði Andrés Ingi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.