Jóhann Sigurður segir frá þessu í tilfinningaþrungnu „story“ á Instagram-síðu Gagnamagnsins. Hann segist líða eftir atvikum vel. „þetta er erfitt þar sem við höfum unnið mikið og lengi að þessu. Við vildum þetta virkilega.“
Greint var frá því í morgun að einn liðsmaður Gagnamagnsins hafi greinst með kórónuveiruna í morgun. Átta úr íslenska Eurovision-hópnum í Rotterdam höfðu þá farið í skimun fyrir kórónaveirunni, þar á meðal Daði og Gagnamagnið. Niðurstöður úr skimuninni bárust í morgun og í ljós kom að einn meðlimur Gagnamagnsins reyndist smitaður.
Stoltur af seinni æfingunni
Hann segist vera mjög stoltur af seinni æfingu Gagnamagnsins sem verður notuð í dómararennslinu í kvöld og sömuleiðis annað kvöld. Hún hafi gengið mjög vel.
„Ég vonast til að gera Íslendinga og aðdáendur okkar stolta.“
Hann segist enn vera að melta málið allt saman. „Ég gerði allt til að vera öruggur en eitthvað hefur farið úrskeiðis. Seinni æfingin var góð og ég hlakka til að sjá hana. Sjáum svo til hvort ég fái að vera með á laugardaginn,“ segir Jóhann Sigurður en kveðst gera sér grein fyrir því að það sé ólíklegt.