Innlent

Utan­ríkis­ráð­herrar Banda­ríkjanna og Rúss­lands funda í fyrsta sinn í Reykja­vík

Eiður Þór Árnason skrifar
Sergei Lavrov og Antony Blinken, utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna.
Sergei Lavrov og Antony Blinken, utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna. Vísir/AP

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, munu hittast á tvíhliða fundi í Reykjavík þann 20. maí næstkomandi.

Áður hafði verið greint frá því að utanríkisráðherrarnir myndu koma til Íslands og sækja fund aðildarríkja Norðurskautsráðsins sem fram fer í Reykjavík þann 19. og 20. maí.

Rússneska utanríkisráðuneytið staðfesti svo í dag að ráðherrarnir hafi rætt saman í síma og fallist á að eiga tvíhliða fund á Íslandi. Verður það í fyrsta sinn sem utanríkisráðherrarnir hittast. 

Taka við formennsku í ráðinu

Lavrov mun leiða sendinefnd Rússlands á fundi Norðurskautsráðsins þar sem Rússar munu taka við formennsku í ráðinu af Íslendingum til næstu tveggja ára. 

Norðurskautsráðið er skipað af Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Kanada, Noregi, Rússlandi og Svíþjóð. Þá eiga til að mynda Kínverjar áheyrnaraðild að ráðinu. Ísland tók við formennsku í ráðinu í maí 2019 af Finnum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur sagt að það sé mikið gleðiefni að ráðherrarnir hafi boðað komu sína til Íslands. 

„Það liggur fyrir að Reykjavíkurborg er tilbúin til þess að bjóða fram Höfða ef svo ber undir en auðvitað eru margir fleiri fundarstaðir sem koma til greina,“ sagði Guðlaugur Þór í samtali við fréttastofu í apríl þegar enn átti eftir að staðfesta að yrði af tvíhliða fundi Lavrov og Blinken.

35 ár eru síðan Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev, þá leiðtogar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, funduðu í Höfða eins og frægt er orðið. Ljóst er að augu heimspressunnar munu aftur beinast að Íslandi síðar í mánuðinum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Höfði stendur þeim Blinken og Lavrov til boða

„Þessar fréttir eru nýtilkomnar og eru mikið gleðiefni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um staðfesta komu utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands hingað til lands í maí.

Ráðherrar mætast fyrst í Reykjavík

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, mun ferðast til Íslands í næsta mánuði. Þá mun hann leiða sendinefnd Rússa á fundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík og taka við formennsku í ráðinu til næstu tveggja ára.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.