Innlent

Fékk fyrst veður af kvörtunum vegna Kol­beins í gær

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður VG tilkynnti í gær að hann drægi framboð sitt til baka. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður VG segir að ákvörðunin hafi komið sér á óvart.
Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður VG tilkynnti í gær að hann drægi framboð sitt til baka. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður VG segir að ákvörðunin hafi komið sér á óvart. Vísir/vilhelm

Þingflokksformaður Vinstri Grænna segist ánægð með ákvörðun Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns VG, um að hætta við framboð vegna hegðunar gagnvart konum. Ákvörðunin, sem komið hafi á óvart, sé alfarið Kolbeins. Hún hafi fyrst fengið veður af kvörtunum vegna hans í gær.

Kolbeinn stefndi á annað sæti á Reykjavíkurlista VG í komandi prófkjöri en hafði áður boðið sig fram í Suðurkjördæmi en ekki hlotið brautargengi. Kolbeinn lýsir því í færslu á Facebook í gær að hann hafi í gegnum tíðina komið illa fram við konur og á dögunum hafi verið leitað til fagráðs VG vegna hegðunar hans. Í ljósi MeToo-bylgju síðustu daga hafi hann að endingu ákveðið að draga framboð sitt til baka. 

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður VG segir ákvörðun Kolbeins algjörlega tekna upp á hans einsdæmi.

„Þetta kom mér á óvart og mér þykir þetta bara afskaplega leitt en ég er um leið mjög ánægð með að hann hafi tekið ábyrgð og tekið þessa góðu ákvörðun sem ég held hann sé að taka. Það er alltaf gott þegar fólk viðurkennir vandann og leitar sér hjálpar, það er það sem þarf að gerast til að við getum upprætt þetta mein úr samfélaginu,“ segir Bjarkey.

Finnst þér þetta of seint? 

„Ég er ekki í neinum færum til að meta það, ég auðvitað vissi þetta ekki fyrr en í gær og hef enga hugmynd um hvers eðlis málin eru, þannig að ég svo sem ætla ekki að taka afstöðu til þess.“

Og þú hafðir ekki fengið veður áður af svona ásökunum á hendur honum?

„Nei.“

Bjarkey kveðst ekki vita hver staðan er á máli Kolbeins innan fagráðsins. Hún telur ólíklegt að ákvörðun hans um að hætta í framboði hafi áhrif á feril málsins.

„Ef það berast kvartanir innan flokksins af hálfu flokksfélaga ber þessu ráði að skoða það og gaumgæfa og lýkur svo með einhverri niðurstöðu, þetta er auðvitað enginn dómur,“ segir Bjarkey.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.