Innlent

Banna ung­lings­stúlku sem mót­mælti Kreml að yfir­gefa heima­bæinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Óeirðarlögreglumenn bera burt mann sem tók þátt í miklum mótmælum gegn rússneskum stjórnvöldum árið 2019. Olga Misik vakti athygli fyrir framgöngu sína þar.
Óeirðarlögreglumenn bera burt mann sem tók þátt í miklum mótmælum gegn rússneskum stjórnvöldum árið 2019. Olga Misik vakti athygli fyrir framgöngu sína þar. Vísir/EPA

Dómstóll í Rússlandi bannaði nítján ára gamalli stúlku að yfirgefa heimabæ sinn í meira en tvö ár eftir að hún var sakfelld fyrir skemmdarverk. Stúlkan vakti mikla athygli þegar hún tók þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum árið 2019.

Olga Misik var sautján ára gömul þegar hún settist niður fyrir framan röð óeirðarlögreglumanna og las upp stjórnarskrá Rússlands fyrir tveimur árum. Hún hefur síðan verið þekkt sem „stúlkan með stjórnarskrána“, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Hún hefur nú verið dæmt til tveggja ára og tveggja mánaða frelsisskerðingar fyrir að hafa skvett málningu á skýli fyrir utan skrifstofur ríkissaksóknara til að mótmæla aðgerðum ríkisvaldsins gegn aðgerðasinnum. Með dómnum er henni ekki aðeins bannað að yfirgefa heimabæ sinn nærri Moskvu heldur einnig að yfirgefa heimili sitt að nóttu til. Dómstóllinn dæmdi tvo karlmenn til viðbótar til sambærilegrar refsingar.

Stuðningsfólk Misik segir refsingu hennar alltof harkalega. „Allt þetta vegna málningarslettu við inngang skrifstofu ríkissaksóknara sem var hreinsuð burt sama morgun,“ segir Dmitrí Gudkov, fyrrverandi þingmaður stjórnarandstöðunnar.

Rússnesk stjórnvöld hafa gengið sérstaklega hart fram gegn andófsfólki og stjórnarandstæðingum eftir mikil mótmæli í landinu þar sem krafist var lausnar Alexei Navalní, eins helsta stjórnarandstæðings landsins, sem dúsir nú í fangelsi. Ríkisstjórn Vladímírs Pútín forseta leyfir takmarkað andóf gegn sér og hún sækist nú eftir að lýsa samtök Navalní gegn spillingu hryðjuverkasamtök.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.