Innlent

Tíu í haldi á Keflavíkurflugvelli

Elísabet Inga Sigurðardóttir og skrifa
Flugvöllurinn á tímum faraldurs kórónuveirunnar.
Flugvöllurinn á tímum faraldurs kórónuveirunnar. VILHELM GUNNARSSON

Tíu manns, sem komu með flugi frá Spáni í gær, eru í haldi á Keflavíkurflugvelli þar sem þeir uppfylla ekki skilyrði þess að koma til landsins. 

Reglugerð dómsmálaráðherra sem leggur bann við ónauðsynlegum ferðum til landsins frá tilgreindum hættusvæðum vegna faraldurs kórónuveirunnar gildir út maímánuð.

„Við erum með tíu manns í okkar vörslu sem mega ekki koma til landsins á grundvelli reglugerð dómsmálaráðherra. Þessir aðilar eru ekki bólusettir og ferð þeirra telst ónauðsynleg,“ sagði Sigurgeir Ómar Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli í samtali við fréttastofu.

Útlendingum, sem koma frá eða dvalið hafa í meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum á svæði þar sem 14 daga nýgengi smita er yfir 700 á hverja 100.000 íbúa eða fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um svæðið, er óheimilt að koma til landsins. Bannið á við alla útlendinga jafnt EES og EFTA borgara sem og alla þriðja ríkisborgara.

Undanþágur eru í reglugerðinni. Bannið tekur meðal annars ekki til þeirra sem hafa fasta búsetu hér á landi, né til þeirra sem eru bólusettir.

„Þeir komu til landsins í gær. Hluti af Spáni er á þessum sautján landa lista og þaðan má fólk ekki koma nema það falli undir undanþáguheimild. Stoðdeild ríkislögreglustjóra annast flutninginn og þeir verða líklega sendir til baka með næstu vél,“ sagði Sigurgeir.

Sigurgeir segir að þessir tíu aðilar hafi að líkindum ekki gert sér grein fyrir reglum sem gilda hérlendis. 

„Eða þá að þeir ætluðu að láta reyna á ferðina, maður veit það ekki,“ sagði Sigurgeir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×