Enski boltinn

Solskjær um tímasetningu Liverpool leiksins: Ekki líkamlega mögulegt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær á möguleika að vinna sinn fyrsta titil sem knattspyrnustjóri Manchester United en það verður nóg að gera fram að úrslitaleik.
Ole Gunnar Solskjær á möguleika að vinna sinn fyrsta titil sem knattspyrnustjóri Manchester United en það verður nóg að gera fram að úrslitaleik. AP/Jon Super

Ole Gunnar Solskjær stýrði Manchester United í gærkvöldi inn í úrslitaleik Evrópudeildarinnar þar sem hann gæti unnið sinn fyrsti titil sem stjóri United liðsins. Norðmaðurinn hafði þó miklar áhyggjur af leikjaálagi United manna á næstunni eftir leikinn.

Framkoma stuðningsmanna Manchester United um síðustu helgi varð til þess að fresta þurfti leiknum við Liverpool.

Stuðningsmennirnir mótmæltu Glazer fjölskyldunni,  bandarískum eigendum félagsins, með því annars að safnast fyrir framan liðshótel United fyrir leikinn og brjótast síðan inn á Old Trafford leikvanginn. Á endanum var tekin ákvörðun að leikurinn færi ekki fram.

Enska úrvalsdeildin hefur nú fundið nýjan leikdag fyrir leik Manchester United og Liverpool en það þýðir að Manchester United þarf að spila þrjá leiki á fimm dögum.

Manchester United á nú að spila við Aston Villa á útivelli á sunnudaginn, spila við Leicester City á Old Trafford á þriðjudeginum á eftir og taka síðan á móti Liverpool aðeins tveimur dögum síðar. Solskjær segir að þetta sé ómögulegt fyrir hans lið.

„Svona þekkist ekki. Svona ákvörðun tekur fólk sem hefur aldrei spilað fótbolta á þessu getustigi,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

„Það er ekki líkamlega mögulegt fyrir leikmenn að spila sunnudag-þriðjudag-fimmtudag. Það er ómögulegt. Við höfum ekki fengið góð hönd en við verðum að spila úr þessu eins vel og við getum,“ sagði Solskjær.

„Við þurfum á öllum að halda í þessum fjórum leikjum. Við munum skoða hvernig menn eru á sunnudagsmorguninn. Við spilum klukkan tvö á sunnudaginn og það er ekki langur tími þangað til,“ sagði Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×