Innlent

Blaða­maður mbl.is segir sig úr stjórn Blaða­manna­fé­lags Ís­lands

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þrír blaðamenn hjá Morgunblaðinu og mbl.is hafa sagt af sér störfum á vegum Blaðamannafélags Íslands í vikunni. 
Þrír blaðamenn hjá Morgunblaðinu og mbl.is hafa sagt af sér störfum á vegum Blaðamannafélags Íslands í vikunni.  Vísir/Egill

Þorsteinn Ásgrímsson, blaðamaður á mbl.is, hefur sagt sig úr stjórn Blaðamannafélags Íslands. Talsverður óróleiki hefur verið meðal blaðamanna Morgunblaðsins og mbl.is undanfarna daga eftir að stjórn BÍ gerði athugasemd við auglýsingabirtingu Samherja á miðlinum.

Báðir trúnaðarmenn BÍ hjá Morgunblaðinu sögðu af sér þeim störfum í vikunni, þau Kristín Heiða Kristinsdóttir og Guðni Einarsson. Ástæða beggja afsagna var afskipti stjórnar BÍ af auglýsingabirtingu Samherja.

Í tilkynningu frá Þorsteini, sem birt er á vef Blaðamannafélagsins, segir hann að ákvörðunarferli eftir stjórnarfund BÍ síðasta föstudag og yfirlýsing félagsins í kjölfarið hafi ekki verið í takt við þá samvinnu innan stjórnar og stéttarinnar í heild sem hann telji mikilvæga.

„Ég tel mikilvægt að haldinn sé umræðufundur eins og stefnt er að á fimmtudaginn vegna háttsemi Samherja í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um fyrirtækið og að sú umræða sé tekin á víðum grundvelli. Slíkt er nauðsynlegt í faginu þegar stórfyrirtæki fer gegn ákveðnum fréttamönnum,“ skrifar Þorsteinn í tilkynningunni.

Umrædd auglýsing Samherja sem birtist á mbl.is á dögunum bar yfirskriftina: „Ábyrgðarleysi í Efstaleiti“. Í auglýsingunni er meðal annars kvartað undan því að niðurstaða siðanefndar RÚV vegna kæru Samherja á hendur blaðamönnum RÚV hafi ekki leitt til þess að Helga Seljan fréttamann hafi verið bannað að fjalla frekar um mál Samherja.

Í kjölfarið fordæmdi stjórn Blaðamannafélags Íslands Árvakur, útgáfufélag mbl.is og Morgunblaðsins, fyrir að hafa birt auglýsinguna. Í yfirlýsingu stjórnarinnar sagði að auglýsingin væri liður í áróðursherferð Samherja gegn Helga Seljan og samstarfsfélögum hans sem hafi staðið linnulaust í eitt og hálft ár.

Yfirlýsing félagsins var meðal fyrstu verka Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, fréttamanns á RÚV, í nýju forystuhlutverki en hún var á dögunum kjörin nýr formaður félagsins.


Tengdar fréttir

Trúnaðar­maður á Morgun­blaðinu segir af sér vegna af­skipta BÍ

Trúnaðarmaður Blaðamannafélags Íslands á Morgunblaðinu hefur sagt af sér vegna afskipta stjórnar BÍ af auglýsingabirtingu Samherja á mbl.is. Hann telur að með afskiptum sínum fari stjórn félagsins langt út fyrir sitt hlutverk og segist hann ekki treysta sér til að verja þau afskipti sem fulltrúi félagsins á Morgunblaðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×