Fótbolti

Hætti í fótbolta eftir að mótherji gerði grín að geðheilsu hans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Cox er hættur í fótbolta.
David Cox er hættur í fótbolta.

David Cox, leikmaður Albion Rovers í Skotlandi, er hættur í fótbolta eftir að mótherji gerði grín að geðheilsu hans. 

Atvikið átti sér stað í leik Albion Rovers og Stenhousemuir í skosku D-deildinni í gær. Leikmaður Stenhousemuir, Jonathan Tiffoney, gerði þá grín að sjálfsvígstilraun Cox.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist en í gær fékk Cox nóg. Hann yfirgaf völlinn í hálfleik og hefur lagt skóna á hilluna.

„Ég átti í útistöðum við einn leikmanna Stenhousemuir og hann gerði grín að geðheilsu minni. Hann sagði að ég hefði átt að gera þetta almennilega í fyrsta skiptið. Einhverjum finnst þetta væntanlega lítið mál en ég er búinn að fá mig fullsaddan af þessu. Ég fæ ekki nógu mikið borgað fyrir það,“ sagði Cox sem var á varamannabekknum í leiknum í gær.

„Ef ég hefði verið settur inn á hefði ég sennilega fótbrotið hann. Ég reyndi að ræða við dómarana en þeir sögðust ekkert geta gert þar sem þeir heyrðu ekki neitt. Ég ætla því að gera eitthvað í þessu og það er að hætta. Ég er búinn að fá nóg. Annars held ég áfram að spila, geng í skrokk á einhverjum og verð vondi karlinn.“

Albio Rovers hefur lýst yfir fullum stuðningi við hinn 32 ára Cox. Í yfirlýsingu frá félaginu kemur fram að ef leikmenn Albion Rovers verið meðvitaðir um hvað var sagt hefðu þeir neitað að fara inn á völlinn í seinni hálfleik í mótmælaskyni.

Stenhousemuir hefur beðið skoska knattspyrnusambandið um að rannsaka málið því ásakanirnar séu alvarlegar.

Tiffoney hefur farið í tímabundið leyfi frá Stenhousemuir meðan rannsóknin stendur yfir. Hann hafnar sök í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×