Innlent

Næstu skref velti á niðurstöðu skimunar

Eiður Þór Árnason skrifar
Er þetta fyrsta smitið sem tengist inn í grunnskólann. 
Er þetta fyrsta smitið sem tengist inn í grunnskólann.  Vísir/Vihelm

Nemendur og kennarar við Flúðaskóla voru beðnir um að halda sig heima í dag eftir að einstaklingur í Hrunamannahreppi greindist með kórónuveiruna í gær. Sá á barn í grunnskólanum sem bíður nú niðurstöðu skimunar en ákveðið var að aflýsa hefðbundnu skólastarfi í fjórða og fimmta bekk til að gæta ítrustu varúðarráðstafana.

Alls er um að ræða fimmtán nemendur í árgöngunum tveimur auk fimm kennara og starfsmanna. Hall­dóra Hjör­leifs­dótt­ir, odd­viti Hruna­manna­hrepps, segir í samtali við Vísi að fjölskyldur sem tengist vinnustað hins smitaða hafi verið sendar í sóttkví en hún var ekki með nákvæman fjölda á reiðum höndum. Mbl.is greindi fyrst frá málinu.

Vonast er til að niðurstaða fáist úr sýnatöku barnsins í kvöld eða í fyrramálið. Halldóra segir að sveitastjórnin hafi átt í samtali við almannavarnir og Heilbrigðisstofnun Suðurlands um næstu skref.

Hún segir að íbúar í hreppnum hafi sloppið vel frá faraldrinum fram að þessu og hér sé um að ræða annað smitið sem upp komi í samfélaginu.

„Það kom smit hér í fyrravetur en það tengdist ekkert inn í skólann og hafði engin áhrif á grunnþjónustuna svo þetta er svona það fyrsta sem hefur þau áhrif.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×