Innlent

Bein útsending: Kvöldfréttir Stöðvar 2

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kvöldfréttir hefjast á samtengdum rásum Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis á slaginu 18:30.
Kvöldfréttir hefjast á samtengdum rásum Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis á slaginu 18:30.

Í kvöldfréttum greinum við frá megininntaki þess sem kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu nú síðdegis varðandi ráðstafanir á landamærunum. Við munum ræða við alla þá ráðherra sem að breytingunum koma og gera þeim skil með myndrænum hætti.

Blikur eru á lofti hér á landi því mikill fjöldi fólks hefur greinst með kórónuveiruna síðustu daga í tengslum við hópsýkingarnar tvær sem nú geisa. Óhætt er að segja að ný staða blasi við landsmönnum í baráttunni við breska afbrigði veirunnar því börn eru ríflega þriðjungur smitaðra. Hundruð þeirra eru komin í sóttkví.

Annasamur dagur var í Laugardalshöll í dag þegar hátt í sex þúsund manns – á öllum aldri – sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma mættu í bólusetningu í dag. Til að fagna þessum áfanga tók Sinfóníuhljómsveit Íslands á móti fólki í Laugardalshöllinni og leyfði því að njóta tónlistar á meðan það fékk stunguna í upphandlegginn. Sumir voru svo glaðir með uppákomuna að þeir vildu helst ekki fara.

Við verðum í beinni útsendingu frá gosstöðvunum og segjum frá því hversu margir hafa heimsótt þær. Ekkert lát er á hinni miklu aðsókn og er gert ráð fyrir að erlendir ferðamenn verði fyrirferðamiklir á gosslóðum á næstu vikum og mánuðum.

Við greinum frá helstu tíðindum á erlendum vettvangi en Bandaríkjamenn bíða nú eftirvæntingarfullir eftir niðurstöðu kviðdóms í máli lögreglumannsins Derek Chauvin sem er ákærður fyrir að hafa banað George Floyd í Minneapolis í fyrra. Búist er við umfangsmiklum mótmælum í Minneapolis og víðar í Bandaríkjunum ef Chauvin verður sýknaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×